Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Draumar eru góðir..

Mig dreymdi í nótt að ég væri að fara til útlanda- til Ítalíu ásamt nokkrum stelpum. Ég hafði mestar áhyggjur af því að hafa gleymt sundfötunum heima og hvort ég ætlaði að taka með mér stóra tösku eða litla tösku. Það var rosalega gaman, ég fór á kaffihús og í búðir og hafði áhyggjur af því hvort ég ætti að nota 20 í sólarvörn eða 30.

Þegar ég vaknaði var ég mjög ánægð að hafa upplifað góða utanlandsferð án þess að eyða krónu!! Ég mæli með þessu ef maður á engan pening. Þetta gæti nú verið góð viðskiptahugmynd að hanna svona tæki sem gerir heilli fjölskyldu kleift að fara saman í ferðalag og skapa minningar án þess hreinlega að fara þangað. Jáh, bara að ég væri uppfinningamaður...


Natural talent..

Ég hef aldrei verið góð að syngja- þó mér hafi stundum fundist það. Þegar ég byrja að syngja í bílnum biðja börnin mig alltaf um að hætta og ætti það að vera merki um lélega söngrödd. Á þessum tíma er verið að velja framlag Íslands í Eurovision, American Idol byrjar í sjónvarpinu og nú íslenska Idolið. Margir hafa það sem þarf - aðrir ekki. Margir eru eins og ég - telja sig vera hæfileikaríka, en fá blákalt mat dómara um hæfileikaleysi á þessu sviði.

Ég hef heldur aldrei verið góður dansari- þó mér hafi stundum fundist það. Þegar ég horfi á dansara og söngvara vildi ég óska þessa að ég gæti verið með það sem þarf. Það sem þarf til að ná árangri á þessu sviði.

Aðalatriðið er þó að þó maður sé falskur á köflum og nái ekki að "krumpa" eins og þeir bestu, þá getur maður sungið bakvið lokaðar dyr og dillað sér í takt við lögin.


hreingerning

Þar sem spúsinn er heima í dag veikur, ákvað ég í morgun að sýna honum að ég geri nú eitthvað hérna á heimilinu þegar ég er ekki að vinna. Ég þreif veggina- tók alla sýnilega bletti og þurfti á vöðvunum mínum að halda fyrir erfiðu blettina. Þeir voru nú allir erfiðir.. Það er ótrúlegt hvað börn setja á veggina- smá krot hér og þar, matarslettur, fingraför osfrv.

Í hálftíma gekk ég um með tuskuna og Ajaxið og spreyjaði í hvívetna. Þegar ég var búin var ég nokkuð ánægð með árangurinn. Þá uppgötvaði ég það það að þar sem maðurinn minn var sofandi allan tímann á meðan á þessu stóð- mun hann örugglega ekki taka eftir hreinu veggjunum, horfa á mig og segja- oh hvað er ljúft líf að vera ekki að vinna !!

 


Pay it forward

Það er eitt sem ég sé eftir að hafa ekki keypt mér í góðærinu þarna um árið - og það eru skíði. Ég á Völke skíði frá 1991 sem móðir mín keypti handa mér á útsölu í Markinu. Þau voru flott þá- með neongrænum, bleikum og gulum eldingum. Svo átti ég stafi í stíl og skórnir voru gamlir skór frá bróður mínum. Ég var svo flott og hipp þá. Þegar ég fór svo á skíði í dag sá ég að þetta er ekki alveg í tísku núna. Skíðin eru öðruvísi í laginu og þau eru minni. Já ég veit- það á ekki að skipta neinu máli hvernig skíðum maður er á- en samt. Ég keypti mér lyftukort fyrir 2000 krónur, þegar ég fór svo heim um 5 leytið- lét ég ungan strák hafa kortið svo hann þyrfti ekki að kaupa sér nýtt. Þannig sparaði ég pening fyrir hann! 

Við getum nefnilega öll hjálpast að. Það eru til aðrar leiðir en að gefa fötin sín í Rauða Krossinn. Um daginn lagði ég bílnum niðri í bæ og borgaði í stöðumæli- fékk svona miða til að setja í gluggann. Þegar ég svo kom tilbaka sá ég að ég átti ónýttan hálftíma. Í stað þess að henda miðanum, setti ég hann í raufina á bílastæðapeningakassanum (veit ekki alveg hvað þetta heitir) svo að næsti maður gæti hugsanlega notað þessar 30 mínútur og þannig sparað pening.

Ég hef stundum séð þetta í Danmörku, þá er búið að setja skiptimiða á áberandi stað hjá strætóplaninu við stoppustöðvarnar og einnig er stundum búið að leggja klippikort ofan á stimpilkassann hjá lestinni. Tökum Dani til fyrirmyndar, hjálpum hvort öðru!

 


Forstjóri Landsvirkjunar

Mottóið mitt í lífinu hefur lengi verið :"þú verður að reyna, annars gerist það ekki". Fyrir jólin var auglýst staða forstjóra Landsvirkjunar. Ég sótti að sjálfsögðu um það þar sem ég fyllti allar hæfniskröfur- nema kannski að ég er ekki í neinum stjórnmálaflokki... Það voru aðeins 54 umsækjendur og var ég nokkuð vongóð enda sjarmatröll mikið og með óendanlega mikinn áhuga á virkjanaframkvæmdum og orku (eða you know... þannig).. Svo fékk ég áfallið í pósti. Ég fékk bréf frá Landsvirkjun þar sem mér var þakkað fyrir að sækja um en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hefði Friðrik Sófason ákveðið að sitja aðeins lengur.  Það er alla vega ekki hægt að segja að ég hafi ekki fengið vinnuna vegna vanhæfni eða af því að ég var kona! Neibbs... En þetta var vissulega áfall- ég var meira að segja búin að athuga hve lengi ég væri að keyra í vinnuna- já, það voru 14 mínútur í meðalumferð en 23 mínútur í mikilli. Ég hefði þannig alltaf mætt á réttum tíma í vinnuna. Svo var ég búin að koma auga á svona skjalatösku sem er víst vinsæl meðal forstjóra, sem mig langaði til að festa kaup á. 

Bráðum munu stöður bankastjóra Landsbankans, Glitnis og Kaupþings verða auglýstar og mun ég að sjálfsögðu vera þar fremst í flokki og sækja um- því eins og ég segi- ég verð að reyna, annars gerist það ekki.

aton1606l


Atvinnutækifæri...

Ég hef verið að skoða atvinnutækifæri þar sem lítið er um atvinnu. Aðalatriðið er að vera frumlegur í hugsun. Það getur oft reynst erfitt en skemmtilegt líka.

Ég var með Baguette í matinn á fimmtudaginn og 7 ára dóttir mín hrósaði mér í hvarvetna hvað ég væri nú svakalega góð í að búa til svona góða langloku. Svo sagði hún alvarlega eftir að hafa horft út í loftið í smá stund; mamma, við tölum bara við afa og athugum hvort hann eigi spýtur. Svo getur hann örugglega hjálpað okkur að smíða kofa- sem er akkúrat pláss fyrir þig í. Svo getum við farið með kofann niður í bæ og þú getur selt svona baguette!

Jáh, maður deyr ekki ráðalaus- þó maður sé aðeins 7 ára!

76084317_Supj60G2_StreetVend_iMar07


Typpalykt af þessu öllu saman...

Loksins loksins er fólk að átta sig á þessu! Typpalykt á vinnustöðum getur verið yfirþyrmandi og hef ég reynsluna á því. Ég er enginn sérstakur femínisti en það er einstaklega erfitt að vera kona í þessu umhverfi. Konur og karlar eru mismunandi þenkjandi og ber að hafa vinnustaði blandaða. Ef typpalyktin er sú eina sem ber ábyrgð- þá er fjandinn laus.

Annars er ég laus, ef það vantar einhvern án testósteróns á vinnustaðinn þinn :)


mbl.is Öld testósterónsins lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

bingó bingó- hristi hrist...

ég fór að velta því fyrir mér hvernig pylsurnar hlóðust á magann minn í gegnum árin, svo ekki sé minnst á bingóið sem dóttir mín hefur mjög gaman af- hún sagði meira að segja vinkonu sinni frá því hvernig mamma hennar hreyfði hendurnar og þær vildu ekki hætta að hristast. Í gegnum árin hef ég talið mig hafa afsökun á að takast ekki á við þessa aukabyrði- ég hef alltaf hreyft mig eitthvað en aldrei af neinni staðfestu.

Nú hef ég enga afsökun- get alla vega ekki kennt tímaleysinu um hreyfingarleysi. Af þessum sökum hef ég ákveðið að tileinka febrúar (stuttur mánuður) hreyfingu og hreyfa mig að minnsta kosti 4-5 sinnum í viku og sleppa súkkulaðinu á meðan. 

Vonandi næ ég með þessu móti að minnka pullurnar og bingóið...

Adios

WeightLossCartoon1


Ef ég hefði aldrei orðið atvinnulaus....

...hefði ég haldið áfram að kaupa dýrasta klósettpappírinn og dýrustu bleiurnar án þess að vita að það eru til ódýrari vörur sem þjóna sama tilgangi

...Þá ætti ég meira af fötum og fleira dót sem ég þarf kannski ekki á að halda

...væri ég ennþá með stöð 2 og börnin mín væru ennþá að vakna klukkan 7 um helgar. Núna vakna þau alltaf klukkan 8

...hitti ég fjölskylduna mína ekki eins mikið og ég geri nú

...væri ég ennþá stressuð- sem ég er ekki núna

... hefði ég aldrei uppgötvað hvað fjölskylda mín er æðislega frábær- þó ég vissi það svosem fyrir. Stundum þarf bara að minna mann á það hvað maður hefur það gott

...hefði ég aldrei byrjað með þetta blogg

...væri ég enn að láta mig dreyma um að komast einhvern tímann í einbýlishús- núna eru þær vangaveltur að baki og ég get einbeitt mér að mikilvægari hlutum

...væri ég örugglega ennþá ljóshærð en þegar ég missti vinnuna ákvað ég að gera einhverjar breytingar og varð brunette í stað ljósette.

Þannig að í sjálfu sér var þetta bara ágætur hlutur og hefur gert líf mitt betra :) Fyrir utan peningana


hugmyndir fyrir atvinnulausa

Ég veit ekki hverjir lesa bloggið mitt en ég vildi óska að það væri einhver með sambönd sem læsi þessa færslu. Atvinnulausir fá lágmarksbætur sem er ekki mikið, að vísu fyrstu 3 mánuðina fær maður tekjutengdar bætur sem eru um 235 þúsund fyrir skatt og eftir það fær maður eitthvað mjög lítið. Margir atvinnulausir hanga heima hjá sér og reyna að eyða sem minnstum pening þar sem þarf að herða sultarólina mjög mikið. Ég las grein í Fréttablaðinu í dag þar sem bent var á að það ætti að vera frítt í leikhús og á sinfoníuna fyrir atvinnulausa. Það fékk mig til að hugsa; ef atvinnulausir fengju sérstakt kort sent sem veitti þeim afslátt af ýmsum viðburðum þá væri það til að hjálpa þeim sem hafa misst vinnuna að gera eitthvað uppbyggjandi og skemmtilegt í atvinnuleysinu. Að sjálfsögðu er aðalmálið að finna sér vinnu en það er úr litlu að moða þessa dagana.

Bláfjöll ættu til dæmis að opna svæðin klukkan 12 1-2 virka daga í viku og selja lyftukort á 500-1000 krónur í stað 2000

Bíóhúsin hafa undanfarið haft ódýra þriðjudaga í bíó- á aðeins 500 krónur miðann sem er frábært. Það sem væri best, væri að hefja sýningar klukkan 2 á einstakar myndir og tilboð á poppi og kóki

Hægt væri að veita afslátt af sundstöðum Reykjavíkur til 4 á daginn

Ég væri alveg til í að vinna smá "community service" á vegum ríkisins til þess að fá aðeins hærri atvinnuleysisbætur, ég gæti týnt rusl (veiiiii gaman), klippt tré, málað leikvelli eða eitthvað annað nokkra tíma í viku. Ég væri líka til í að fara í einhvers konar hugmyndahóp á vegum ríkisins til að reyna að finna leiðir til að gera samfélagið betra án þess að eyða miklum peningum í það.

Þetta er alla vega umhugsunarefni, það geta allir lagst á eitt og hjálpast að.

community%20service


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband