Ævintýri í nammilandi

Ég fór, eins og margir Reykvíkingar gera á laugardögum, í nammiland í Hagkaup. Það á að vera svo ódýrt- maður fær nammið á hálfvirði. Fyrir ofan nammistandinn stóð stórum stöfum: 50% afsláttur á laugardögum. Mér finnst ég alltaf vera að græða- fyrir hver 2 nammi sem ég tek, fæ ég eitt gefins.

Þarna stóðum ég og dóttir mín, köfuðum okkur leið í gegnum mannþröngina með hlaupkarla undir skónum. Ég náði tveimur broskörlum og við og við kallaði ég á dóttur mína til að athuga hvort hún hefði nokkuð troðist undir í öllum látunum. Fólk hamstraði, keypti jafnvel 3 troðfulla poka af alls konar nammi. Ég valdi nokkur nammi fyrir mig og spúsann, tók 2 af hverju og gafst loks upp eftir að finna að mér var orðið mjög heitt- leið eins og ég væri að reyna að komast fremst á Sálartónleikum, svo mikill var troðningurinn.

Mér verður litið á fimmtuga konu þarna í mannþrönginni. Allir í kring virðast hverfa og ég fylgist með henni. Hún opnar nammiboxið á jarðaberjahlaupinu, treður höndinni ofan í, tekur eina lúku og setur í troðfullan pokann. Ég horfi á hana með vanþóknun og finn að mér verður óglatt. Hún tekur eftir mér og horfir skömmustulega á mig, snýr sér við og finnur sér leið út úr nammilandinu. Ég segi dóttur minni mjög hátt að við skyldum bara hætta við að kaupa nammið þar sem við værum að kaupa bakteríur, útskýrði fyrir henni háttsemi konunnar og sagði henni að sumir væru bara of dónalegir til að nota skeið. Hún lítur á mig með tárin í augunum og segist vera búin að velja besta nammið og að hana langi eiginlega ekki til að skila því.  Ég segi henni að næst munum við fara út í sjoppu á laugardögum í stað þess að ferðast alla leið í Hagkaup í nammilandið.

Við komum að kassanum, borgum og göngum burt. Ég hef þann sið að skoða miðann sem ég fæ frá afgreiðslustúlkunni og rek ég þá upp stór augu, 975 krónur kílóið af sælgæti!!! Á venjulegum degi eru þetta sem sagt um 2000 krónur kílóið! Ekkert skrýtið að Okurkaup (það ætla ég að kalla Hagkaup héðan í frá) skuli ekki láta verðið standa fyrir ofan nammilandið.

Ég heiti því héðan í frá að versla ekki nammi þarna aftur - þó ég fái sýkla í kaupbæti.

germssýklar eru ekki svona sætir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband