pólitík tík tík...

Ég ákvað þegar ég byrjaði með þessa síðu að ræða aldrei um pólitík en þar sem kosningar eru eftir 2 daga, gef ég mér leyfi fyrir pínu pólitík.

Algengasta spurningin sem erlent fjölmiðlafólk spyr mig, er hvort ég sé reið út í einhvern út af ástandinu á Íslandi. Ég svara með mínu jákvæða hugarfari að það sé að sjálfsögðu hægt að finna einhvern til þess að vera reiður út í en það hafi bara ekkert upp á sig. Það verði að huga að framtíðinni og hjálpast að til að finna lausn úr þessum vanda.

Ég hef einnig verið spurð hvað ég vilji sjá að verði gert á næsta kjörtímabili. Ég þurfti að hugsa mig vel um því úr svo mörgu var að taka. Ég er ekki enn búin að ákveða hvaða flokk ég ætli að kjósa því það er bara svo erfitt. Þess vegna hef ég ákveðið að fara með nokkrar spurningar á ákveðnar kosningaskrifstofur á morgun og sá flokkur sem svarar þeim best fær mitt atkvæði. Ég hugsa auðvitað um hvað sé best fyrir mig og mína fjölskyldu, þar sem við erum í miðri kreppu- ég atvinnulaus, með erlend lán og börn á mínu framfæri.

Ég ætla að bera eftirfarandi spurningar undir flokkana:

1. Hvernig ætlið þið að sjá til þess að börnin þurfi ekki að þjást vegna kreppunnar? Að mínu mati á sú kynslóð sem á engan þátt í hvernig komið er fyrir þjóðinni ekki að þurfa að þjást. Allt sem viðkemur börnum ætti að vera ókeypis, eins og að fara til tannlæknis, kaupa lyf, skólamatur osfrv. Ég fór í Tanngarð síðustu helgi með börnin mín þar sem við höfum ekki ráð á tannlæknaskoðun þetta árið. Ég fékk algjört áfall þegar ég kom þarna og sá hvað mörg börn voru mætt með foreldrum sínum. Mörg börn höfðu það miklu verra en mín börn og sum höfðu jafnvel aldrei farið til tannlæknis. Ein ferð til barnalæknis og pensilínskammtur kostar um 4000 krónur síðast þegar ég gáði og hafa ekki margir ráð á því. Ég vil heldur ekki að börn þurfi að vera svöng í skólanum því að foreldrar hafi ekki ráð á að greiða um 5000 krónur á mánuði í skólamat.

2. Hvernig ætlið þið að sporna við atvinnuleysi? Ég vil ekki heyra svarið, jah- við ætlum sko að skapa um 6þúsund ný störf. Ég vil fá að vita hvernig á að fara að því og hvort verið sé að horfa til allra atvinnulausra eða bara ákveðins hóps. Er verið að huga að fólki með menntun, iðnmenntuðu fólki, ungu fólki, gömlu fólki, fólki með enga menntun osfrv. Mér finnst svolítið skrýtið að ríkið sé að segja upp fólki en um leið ætli það að skapa ný störf... Eitthvað furðulegt við það.

3. Hvað á að gera fyrir fólkið í landinu sem er með húsnæðislán? Ég komst nýlega að því að bankarnir breyttu erlendum lánum yfir í íslensk í janúar 2008 vegna þess að þeir vissu að krónan myndi lækka. Samt heldur skuldarinn áfram að greiða háar afborganir miðað við gengi krónunnar. Því græða bankarnir á tá og fingri á mismuninum. Ég vil heldur ekki heyra að hægt verði að lengja húsnæðislánin og borga minna í einhvern x tíma, hvað hefur það upp á sig? Það er engin lausn.

Ég tek það fram að þetta er bara mín skoðun og ætla ég að ganga með opinn hug á milli kosningaskrifstofa með þessar spurningar í farteskinu.

politics-essence


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér lýst vel á spurningarnar.  Það væri gaman að sjá hvers þú verður vísari á kosningaskrifstofunum. 

Svo má prófa kosningakompásinn til að þrengja hringinn, hann gæti komið á óvart.

http://mbl.is/mm/frettir/kosningar/compass.html

Magnús Sigurðsson, 23.4.2009 kl. 22:54

2 identicon

Mjög sniðugt hjá þér Inga, þetta er eins í survivor, sá er svarar rétt fær atkvæðið mitt  

"Að mínu mati á sú kynslóð sem á engan þátt í hvernig komið er fyrir þjóðinni að þjást" uuu... þú meinar örugglega EKKI að þjást

Lilja (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 08:54

3 Smámynd: Inga

hehe... ég er búin að breyta þessari málvillu, takk fyrir að láta mig vita af henni :)

Inga, 24.4.2009 kl. 09:35

4 identicon

Ég er sjálfsagt að rífa allt úr samhengi hér og ekki að halda mig við málefnið, en hvernig stendur á að þú ert alltaf að lenda í að erlent fjölmiðlafólk sé að spyrja þig álits, ef þú ert bara atvinnulaus Reykjavíkurmær?

Ég er t.d. orðinn hundgamall fauskur á sextugsaldri og hef aldrei lent í að erlent fjölmiðlafólk hafi séð ástæðu til að spyrja mig álits á nokkrum hlut.  Satt að segja hafa innlendir fjölmiðlar ekki heldur séð ástæðu til að forvitnast um skoðanir mínar, nema hvað einu sinni lenti ég í spurningu dagsins á DV, en ég man ekki lengur um hvað það snérist.

Theodór Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 12:28

5 identicon

tek undir það með Theodóri... hvaðan kemur allt þetta fjölmiðlafólk?

En góð hugmynd að fara á kosningaskrifstofurnar - en það þarf að hugsa aðeins lengra.

Allt ókeypis fyrir börn - hver á að borga það? Sé ekki alveg hvaðan þeir peningar eiga að koma. Og af hverju eiga börn þeirra sem eiga feikinóg að fá allt ókeypis? Þá er margt annað sem er þarfara að eyða peningunum í.

Það kostar 500 kr. að fara með barn til barnalæknis - það er bara akkúrat ekki neitt nær ekki upp í nös á ketti eða barnalækni... Ríkið borgar c.a. 3500 kr. á móti...

x (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 13:53

6 Smámynd: Soffía

Góðar spurningar Inga.  Er sammála varðandi þetta með börnin okkar, fékk lika vægt áfall þegar ég sá ástand tannheilsu þessa unga fólks okkar og aðsóknartölur.  Á hinum norðurlöndunum er þessu öðruvísi farið og ég man hversu lengi ég hneykslaðist á kerfinu þegar ég flutti heim frá Danmörku, orðin þá vön alvöru velferðarsamfélagi

Soffía, 24.4.2009 kl. 15:06

7 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Takk fyrir þessa góðu grein en hvers vegna heldurðu að 593 hafi lesið bloggið þitt en ekki nema 16 mitt?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 24.4.2009 kl. 16:13

8 Smámynd: Inga

Sæll Theodór, ég veit ekki alveg hvernig þetta æxlaðist- en þetta byrjaði á því að það var birt grein um mig í Morgunblaðinu út frá einmitt þessu bloggi. Eftir það fór erlent fjölmiðlafólk að tala við mig og eitt leiddi að öðru. Þetta er búið að vera rosalega gaman- en ég fæ ekki eina krónu fyrir þessa vinnu.

Mín skoðun er sú að óháð því hvernig foreldrarnir eru staddir fjárhagslega, ætti allt að vera frítt fyrir börn, þau eiga að standa jöfnum fæti í samfélaginu eins og er í löndunum í kringum okkur. Í Frakklandi eru öll lyf ókeypis, læknisskoðanir, sjúkraþjálfun, tannlæknar osfrv. En- ég lofaði að blanda mér ekki í pólítík og ætla því ekki að ræða þetta frekar.

Inga, 24.4.2009 kl. 16:50

9 identicon

Sæl Inga,

Það er gott að þetta er svona vaxið, en þetta kom mér spánskt fyrir sjónir.  Ég hefði skilið þetta ef þú værir áberandi í þjóðlífinu, eða fjölmiðlafulltrúi einhverrar hreyfingar eða stofnunar sem væri áberandi út á við, en þar sem ég hef aldrei heyrt á þig minnst fannst mér þetta dálítið einkennilegt.  Gangi þér bara vel að læða einhverju jákvæðu um okkar að þessu erlenda fjölmiðlafólki, þó að ég viti varla hvað það ætti að vera.

Theodór Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 17:08

10 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

 Sæl Inga þú færð hér pistil svo þú getir ákveðið þig var að ræða við frænda þinn Guðjón Stefánsson

Ljóst er að kosningarnar á morgun eru einhverjar þær mikilvægustu sem haldnar hafa verið, ekki aðeins í sögu Framsóknarflokksins heldur einnig íslensku þjóðarinnar. Á morgun verður kosið um það hvernig samfélag við viljum byggja upp eftir efnahagshrunið. Þörfin fyrir að gildum Framsóknarflokksins sé haldið á lofti hefur líklega aldrei verið jafn mikil og nú, og aldrei hefur verið jafn gott tækifæri til að hafa áhrif til góðs, til framtíðar.Mjög margir kjósendur hafa ekki gert upp hug sinn. Mörgum þeirra líst vel á Framsóknarflokkinn, enda hefur flokkurinn mikla sérstöðu í þessum kosningum. Hann er sá eini sem hefur sýnt fram á raunhæfar lausnir.

 Horfðu á skilaboðin hér http://www.framsokn.is

 

Hver og einn getur haft mikil áhrif til að fjölga atkvæðum fyrir þessar kosningar. Það reynir því mikið á að allir leggist á árarnar á lokasprettinum.


Jón Ólafur Vilhjálmsson, 24.4.2009 kl. 22:30

11 Smámynd: Sigrún Óskars

Góðar spurningar - þú verður eiginlega að segja okkur svörin.

Varðandi barnafólk;  þá erum við hjónin "millitekjufólk" með einn 15 ára á framfæri og höfum það bara fínt. Við höfum ekki fengið barnabætur í mörg ár en alltí einu sá "ríkið" sér ástæðu til að borga okkur barnabætur, einhverja hundrað kalla, sent í sitthvoru umslaginu (við búum í sama húsinu). Þessir peningar kæmu sér betur hjá barnafólki sem þarf á því að halda. Það þarf að skipuleggja allar svona "bætur" betur. Við þurfum ekki þessar bætur - ég er kannski vanþakklát ?

Sigrún Óskars, 24.4.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband