Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Rómarævintýri

Á þessum tíma árs er ég vön að skipuleggja sumarfrí fjölskyldunnar. Það verður lítið um þá skipulagningu í ár og er ég því svolítið eirðarlaus. Í maí í fyrra fórum ég og spúsinn í ferð til Rómar og bættum við smá rómantísku tvisti í lok ferðarinnar með því að fara til Lake Como og Milano. Í Róm var rosalega heitt. Við gengum alla daga, skoðuðum sögufræga staði, fórum út að borða og sváfum lengur en venjulega. Á gistiheimilinu þar sem við gistum vann filipeyskur maður, rosalega kurteis og stóð alltaf upp um leið og við komum fram á ganginn. Hann var þarna þegar við fórum að sofa og þegar við borðuðum morgunmatinn. Við spjölluðum lengi við hann eitt kvöldið. Hann sagði okkur frá því að hann ætti konu og dóttur á Filippseyjum og væri í Róm til að sjá fjölskyldunni farborða. Starfið var honum mjög mikilvægt og vann hann öll kvöld og allar nætur 13-14 tíma á dag - nema einn sunnudag í mánuði, þá fékk hann frídag. Á 3 ára fresti færi hann svo til Filippseyja í heilan mánuð til að hitta fjölskylduna sína. Við vorkenndum greyið manninum en hann sagði að það hefði hreinlega ekki verið annað í stöðunni en að gera þetta svona. Verður þetta svona með Íslendinga? Maðurinn fer út að vinna af því enga vinnu verður að fá, og svo hittir hann fjölskylduna einu sinni á ári eða jafnvel sjaldnar? Við vildum hjálpa manninum og gáfum honum því 20 Evrur í þjórfé. Það sem eftir var af fríinu töluðum við mikið um það hve gott við hefðum það að vera Íslendingar sem gætum gefið 20 Evrur í þjórfé.

ferðin á ströndina

Ég horfi út á hafið og finn sjávarilminn. Ég leggst á sandinn, ber sólarvörn á skjannahvítan líkamann. Það er frekar svalt enda hávetur- en ég læt það ekki stoppa mig. Dóttir mín týnir skeljar og sonurinn dýfir tásunni í sjóinn. "kalt mamma" kallar hann. Lífið gæti ekki verið betra- spóka sér á sólarströndinni með fjölskyldunni. Það dregur ský fyrir sólu og skyndilega verður mjög kalt. Við tökum saman og hlaupum í átt að bílnum, hlæjandi og ánægð.

Ég lít í átt til Perlunnar og hugsa með mér að það séu margir hlutir sem hægt er að gera í stað þess að fara til útlanda! Þessi ferð kostaði ekki neitt.

Það er frítt í Árbæjarsafnið á föstudögum :)

 


Vinnumálastofnun

Ég gekk inn í Vinnumálastofnun. úti var svo mikil snjókoma að það var erfitt að finna húsið. Ég bjóst við að þurfa að taka númer, tók meira að segja bók með til að lesa. Fór léttklædd (ekki of samt) ef ske kynni að það yrði allt of heitt þarna inni. Ég var frekar stressuð- ekki viss um að ég hefði alla pappírana með, svo hafði ég nokkrar spurningar sem ég ætlaði alls ekki að gleyma að spyrja.

Ég kom inn, gekk út aftur til að vera viss um að vera á réttum stað- jú, þarna stóð Vinnumálastofnun- ráðgjafar. Það stóð einn maður inni á miðju gólfinu og enginn annar. Það var ekki einu sinni númerakerfi. Þetta var eitthvað annað en ég bjóst við. Ég endurtók ósk mína í huganum "please, ekki lenda á einhverri gamalli grybbu, ekki lenda á gamalli grybbu". Fram kom mjög hugguleg kona og bauð mér sæti hjá sér. Á borðinu var kertaljós og hún brosti til mín. Mér leið strax vel og mundi eftir öllum spurningunum sem ég var svo hrædd um að gleyma. Við göntuðumst aðeins og það fór vel á með okkur, hún fræddi mig um hvað ég skyldi gera í framhaldinu og stuttu síðar þegar ég kvaddi, var ég búin að fá allar nauðsynlegar upplýsingar, tilbúin að vera atvinnulaus.


hva? Er ég bara ein af 2824 konum?

Vá, ég vissi ekki að talan væri svona lág. En þegar maður fer að spá í það hve margar konur búa á höfuðborgarsvæðinu- jah, þá eru þetta kannski svolítið margar konur. Mér leist betur á töluna að ég væri ein af 12.793. En ég verð formlega inni í þessari tölu á mánudaginn.

jobless


mbl.is Yfir 8 þúsund atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Life sucks

Ég ákvað í upphafi þegar ég stofnaði þessa síðu að vera jákvæð og tala aldrei um neitt voðalega leiðinlegt. Í bloggheiminum er ekki rætt um annað en hvað hefur gerst síðustu daga og oft á mjög mjög neikvæðan hátt.

Ég á alveg rétt á því að vera bitur, búin að missa vinnunna, spariféð og tæknilega séð er ég gjaldþrota vegna lánanna og lækkun íbúðarverðs. Ég gæti verið leiðinleg og neikvæð, lagst í þunglyndi og horft á stillimynd stöðvar 1 allan daginn. Legið upp í sófa og beðið eftir að einhver komi og skafi mig upp úr honum. Ég gæti jafnvel sleppt því að fara í bað- því hvort sem er skilja allir að maður sé óþrifinn þegar maður hefur gengið í gegnum þessar hörmungar. Ég gæti selt málningadótið mitt og látið vaxa hár undir höndunum. Þegar fólk loksins dirfðist til að hringja í mig og spyrja hvernig ég hefði það, myndi ég segja að ég hefði það skítt og ömurlegt. Svo gæti ég bloggað um allt það leiðinlega sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Það er ekki ég. Ég ætla að vera jákvæð og ánægð með lífið. Ég ætla að halda áfram að senda jákvæða strauma til ykkar allra þarna úti og fara í bað reglulega.

Lífið gæti verið verra.


Er maður góður í einhverju?

Ég veit ekki hvort það sé uppeldinu að þakka/kenna, en ég hef ávallt haft mikið sjálfstraust, fundist ég vera ótrúlega fyndin og klár. Ég byrjaði í handbolta 10 ára gömul og var skellt á línuna- fékk meira að segja að vera í A liðinu þegar ég var 12 ára. Einu sinni vorum við að æfa skot á mark og ég hitti í markið. Markvörðurinn var voðalega hissa og sagði að þetta væri í fyrsta skiptið sem hún hefði ekki varið frá mér. Þá uppgötvaði ég það að ég yrði aldrei stórskytta.

Ég byrjaði í blaki fyrir 3 árum síðan með nokkrum stelpum. Mér fannst ég alltaf vera svo óstjórnlega góð í blaki. Annað kom á daginn og hefði ég virkilega þurft að æfa uppköstin aðeins frekar til að ná árangri. Þau lentu oftast í netinu. Þá uppgötvaði ég að ég yrði aldrei blakdrottning.

þegar ég byrjaði í háskóla fannst mér ég vera rosalega klár, svo klár að ég þurfti varla að læra heima. Ég gat sofið aðeins lengur en hinir og mætt þegar mig langaði til. Stundum gekk þessi áætlun upp en oftast ekki. Þá uppgötvaði ég að ég þyrfti kannski að hafa aðeins meira fyrir því að ná árangri í skóla.

Ég tók smá badminton í vetur með vinnufélögunum, handviss um það að ég hefði engu gleymt frá því í badminton í grunnskóla. Hmmmm... Annað kom á daginn og ég tapaði 4 leikjum af 4- þrátt fyrir vilja eins kollega að reyna að leyfa mér að vinna.

Ég sé það núna að maður er ekki fæddur með alla heimsins hæfileika, maður getur verið betri í einu frekar en öðru en maður þarf að hafa fyrir því til að ná langt í lífinu- hvort sem er í íþróttum, skóla eða öðru. 31 árs gömul er ég að uppgötva það núna.


Ævintýri í nammilandi

Ég fór, eins og margir Reykvíkingar gera á laugardögum, í nammiland í Hagkaup. Það á að vera svo ódýrt- maður fær nammið á hálfvirði. Fyrir ofan nammistandinn stóð stórum stöfum: 50% afsláttur á laugardögum. Mér finnst ég alltaf vera að græða- fyrir hver 2 nammi sem ég tek, fæ ég eitt gefins.

Þarna stóðum ég og dóttir mín, köfuðum okkur leið í gegnum mannþröngina með hlaupkarla undir skónum. Ég náði tveimur broskörlum og við og við kallaði ég á dóttur mína til að athuga hvort hún hefði nokkuð troðist undir í öllum látunum. Fólk hamstraði, keypti jafnvel 3 troðfulla poka af alls konar nammi. Ég valdi nokkur nammi fyrir mig og spúsann, tók 2 af hverju og gafst loks upp eftir að finna að mér var orðið mjög heitt- leið eins og ég væri að reyna að komast fremst á Sálartónleikum, svo mikill var troðningurinn.

Mér verður litið á fimmtuga konu þarna í mannþrönginni. Allir í kring virðast hverfa og ég fylgist með henni. Hún opnar nammiboxið á jarðaberjahlaupinu, treður höndinni ofan í, tekur eina lúku og setur í troðfullan pokann. Ég horfi á hana með vanþóknun og finn að mér verður óglatt. Hún tekur eftir mér og horfir skömmustulega á mig, snýr sér við og finnur sér leið út úr nammilandinu. Ég segi dóttur minni mjög hátt að við skyldum bara hætta við að kaupa nammið þar sem við værum að kaupa bakteríur, útskýrði fyrir henni háttsemi konunnar og sagði henni að sumir væru bara of dónalegir til að nota skeið. Hún lítur á mig með tárin í augunum og segist vera búin að velja besta nammið og að hana langi eiginlega ekki til að skila því.  Ég segi henni að næst munum við fara út í sjoppu á laugardögum í stað þess að ferðast alla leið í Hagkaup í nammilandið.

Við komum að kassanum, borgum og göngum burt. Ég hef þann sið að skoða miðann sem ég fæ frá afgreiðslustúlkunni og rek ég þá upp stór augu, 975 krónur kílóið af sælgæti!!! Á venjulegum degi eru þetta sem sagt um 2000 krónur kílóið! Ekkert skrýtið að Okurkaup (það ætla ég að kalla Hagkaup héðan í frá) skuli ekki láta verðið standa fyrir ofan nammilandið.

Ég heiti því héðan í frá að versla ekki nammi þarna aftur - þó ég fái sýkla í kaupbæti.

germssýklar eru ekki svona sætir


heilagröf

Ég gref og gref og gref, ég þarf væntanlega að nota annað en hendurnar því það er svo erfitt- kannski get ég fundið skóflu einhvers staðar. Ég gref inn í hausinn og finn að ég er svo nálægt því að finna mig aftur. Finna sköpunargleðina sem týndist í uppganginum, vökunóttum og metnaðnum að standa mig vel í vinnunni. Ég vann og vann, svaraði pósti seint á kvöldin og snemma á morgnana, vann á kvöldin og um helgar. Ég týndist og gleymdi sjálfri mér, staðráðin í að finna hagkvæmari lausnir fyrir starfið. FInna lausnir fyrir aðra.

Á meðan á þessu stóð setti ég hluti eins og heilsuna, fjölskylduna og áhugamálin í annað sæti. Þá hluti sem eiga að vera í fyrsta sæti. Nú þarf ég að hugsa allt upp á nýtt, forgangsraða upp á nýtt, lifa lífinu öðruvísi.

Ég veit að sama hvað maður gerir í lífinu, það er ekki alltaf jafnskemmtilegt, en að vera í vinnu þar sem maður getur nýtt sína hæfileika er mikilvægur þáttur. Að gera áhugamál að vinnu. Að finna jafnvægi á milli einkalífs og vinnu.

Það er kannski hægt að segja að atvinnuleysið hafi verið ákveðin blessun í dulargervi og sýnt mér hvað það er sem skiptir máli. 

Ég held áfram að grafa og vonandi finn ég sjálfa mig áður en ég fæ hausverk....

 

 


Better luck next time....

Í dag er ég 1000 krónum fátækari. Ég keypti Víkingalottó í góðri trú en... ekkert gerðist. Ég var að vísu með helminginn af tölunum réttan, en fékk ekki einu sinni 100 kall.

Þá er bara að snúa sér aftur að upprunalegu áætluninni, sem er að leita mér að vinnu. Ekkert Bahamas fyrir mig ..

662-beach-cartoon


Þú ert númer 1000 í röðinni....

Ég fór niður í Engjateig á mánudag til að fá mér að borða með systur minni. Við sáum stöðugan straum af fólki ganga að byggingu þar og áttuðum okkur svo á því að allir voru að fara í Vinnumálastofnun.  Á hverjum degi koma um 130-160 manns að heimsækja stofnunina.

Eins og ég hef sagt áður, spái ég því að þessi tala verði komin í 15þúsund eftir 1.febrúar. Ég verð niðri í Vinnumálastofnun með númer í hendinni 2.febrúar, þar sem á eftir að standa; þú ert númer 1000 í röðinni... Það verður gott að taka með bók og nesti.


mbl.is Yfir 12.100 án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband