Rómarævintýri

Á þessum tíma árs er ég vön að skipuleggja sumarfrí fjölskyldunnar. Það verður lítið um þá skipulagningu í ár og er ég því svolítið eirðarlaus. Í maí í fyrra fórum ég og spúsinn í ferð til Rómar og bættum við smá rómantísku tvisti í lok ferðarinnar með því að fara til Lake Como og Milano. Í Róm var rosalega heitt. Við gengum alla daga, skoðuðum sögufræga staði, fórum út að borða og sváfum lengur en venjulega. Á gistiheimilinu þar sem við gistum vann filipeyskur maður, rosalega kurteis og stóð alltaf upp um leið og við komum fram á ganginn. Hann var þarna þegar við fórum að sofa og þegar við borðuðum morgunmatinn. Við spjölluðum lengi við hann eitt kvöldið. Hann sagði okkur frá því að hann ætti konu og dóttur á Filippseyjum og væri í Róm til að sjá fjölskyldunni farborða. Starfið var honum mjög mikilvægt og vann hann öll kvöld og allar nætur 13-14 tíma á dag - nema einn sunnudag í mánuði, þá fékk hann frídag. Á 3 ára fresti færi hann svo til Filippseyja í heilan mánuð til að hitta fjölskylduna sína. Við vorkenndum greyið manninum en hann sagði að það hefði hreinlega ekki verið annað í stöðunni en að gera þetta svona. Verður þetta svona með Íslendinga? Maðurinn fer út að vinna af því enga vinnu verður að fá, og svo hittir hann fjölskylduna einu sinni á ári eða jafnvel sjaldnar? Við vildum hjálpa manninum og gáfum honum því 20 Evrur í þjórfé. Það sem eftir var af fríinu töluðum við mikið um það hve gott við hefðum það að vera Íslendingar sem gætum gefið 20 Evrur í þjórfé.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já ég man þegar þú sagðir mér frá þessu. humm, íslendingar hafa það enn, mun betra en margir..."þetta reddast"

ásdís (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband