hrakfarir Ingu volume 4...
19.4.2009 | 15:32
Ég ákvað að Googla mig áðan og fann gamalt blogg sem ég skrifaði fyrir 4 árum síðan. Fyrst ég er búin að opna dyrnar á hrakfallasögum mínum, get ég ekki hætt alveg strax :)
Ég hló meira að segja sjálf og trúi því varla að ég hafi skrifað þetta á bloggið mitt.. Hér kemur sagan:
15.04.2005 10:45:13 / ingaje
Enn einn föstudagurinn genginn í garð. Oh, hvað maður er alltaf þreyttur en ánægður á föstudögum.
Ég, frú hrakfallabálkur, ólukkunnar pamfíll, er búin að lenda í ýmsu þessa vikuna:
- Ég ákvað að fara í plokkun á þriðjudaginn, bara svona til að líta vel út og svona. Ég fór á minn vanalega stað og fékk plokkun og litun. Þegar stelpan var búin að plokka mig, slengdi hún spegli í andlitið á mér, og ég með sviðann í augunum eftir litinn, sagði bara "fínt". Ég fór út í bíl. Úti var sólskin þannig að hver felling og hvert hár sást betur en með stækkunargleri. Ég leit í spegil og brá, því ég hélt að það væri rússnesk bóndakona í baksætinu á bílnum. En, ég uppgötvaði síðar- eftir að ég var búin að jafna mig, að þetta var ég!!! Ég hef aldrei séð jafn loðnar augabrúnir... Ég keyrði á ofsahraða í Lyfju og hljóp inn. Ég passaði mig á að horfa niður allan tímann, fór í eina hilluna og fann plokkara. Svo borgaði ég og hljóp út. Eftir það sat ég inni í bíl og eyddi afgangnum af matartímanum mínum í að plokka hárin sem "snyrtifræðingurinn" hafði verið svo örlát að skilja eftir.
- Ég rak hnéð á mér í gerefti heima þegar ég var að setja tappa undir skenkinn okkar. Ég er það bólgin að ég er búin að haltra í 2 daga.
- Fimm mínútum seinna, rak ég ennið á mér í ljós, svo harkalega að ég var hrædd um að fá glóðarauga. En sem betur fer, er bólgan bara langt undir húðinni
- Í gær var ég að tala við viðskiptavin í símann og náði á einhvern hátt að klemma puttann minn á milli borðsins og stólsins. Ég þurfti að halda ró minni í símann en það var svo mikill sláttur í puttanum mínum allan daginn að ég átti erfitt með að nota lyklaborðið. En það er búið núna.
- Áðan rak ég svo sköflunginn í blómapottinn...
Hvernig ætli helgin verði?
Athugasemdir
þvílíkur hrakfallabálkur það er hægt að brosa af þessu eftirá
Sigrún Óskars, 19.4.2009 kl. 20:27
Inga, þú ert bara æði :)
Elín Ó. (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 14:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.