Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Money money

Á morgun líkur mínum fjárhagsáhyggjum fyrir fullt og allt. Ég ætla að mæta á fimmtudaginn í bankann og segja þeim kurteisislega að ég ætli að greiða upp íbúðalánið og lánin á báðum bílunum. Svo ætla ég að fara í Kringluna og versla fullt af fötum- ekki á útsölu. Að lokum ætla ég að hringja í lýtalækni og panta tíma í eyrnasneplaminnkun- kannski henda inn svona brjóstalyftingu. Svo er það bara Bahamas um páskana og Florida í sumar.

Þetta er bara svo ótrúlega auðvelt. Á morgun ætla ég að eyða þúsundkalli og breyta honum í milljónir! Ég sá nefnilega að það er hægt að vinna allt að 500 milljónir í Víkingalottó á morgun. Ég var einmitt að hugsa um svona styrktarsjóð- bara til að gera eitthvað göfugt fyrir peninginn, svona 100 milljóna króna sjóð, þá eru bara 400 milljónir eftir. Víííí.... Já, hver vill vera vinur minn?


Von von og aftur von

Ég sat við borðið heima og ákvað að nú væri komið að því! Ég sótti mér blað og penna og skrifaði niður alla þá staði sem hugsanlega væru að leita að starfsfólki- og þá kláraðist blaðið svo ég þurfti að sækja mér annað (einmitt).

Ég sá auglýst starf um daginn - besta starf í heimi, maður átti að búa á eyju fyrir sunnan Ástralíu, gefa fiskum og halda uppi vefsíðu, ganga um á flip flopps allan daginn og heilsa túristum. Allt þetta leiðinlega átti maður að gera í 6 mánuði fyrir litlar 13 milljónir! Úffff, frekar vildi ég sitja á skrifstofu í Reykjavík.

Það er ekki mikið um starfsmannaveltu þessa dagana en það þýðir samt ekki að maður eigi að gefa upp vonina, alls ekki. Alla vega hef ég ekki enn gefist upp. Þessi vika er því tileinkuð mér og minni atvinnuleit. Annars stakk spúsinn upp á að hafa svona styrktarlink hér til hliðar svo að fólk gæti gefið mér pening. Þannig gæti ég verið áfram atvinnulaus ooooooog haldið áfram að blogga!

 


2007 verður 2009

Hún opnar skápinn, tekur út pelsinn og virðir hann fyrir sér. Ætli sé nógu kalt til að fara í hann? Hún stingur honum aftur inn og vonar að kuldinn komi bráðum. Hún heyrir í bíl fyrir utan. Maðurinn er kominn heim. Hann stígur út úr flotta Range Rovernum sínum sem hann keypti fyrir bónusinn í fyrra. Hún tekur eftir því að hann er tekinn í framan og ósofinn. Hann kyssir hana og gengur inn. Fer enn eina ferðina að minnast á að þau hefðu kannski átt að sætta sig við 200 fermetra en ekki 350. Hún strýkur með tusku af granítplötunni og virðir Tolla málverkið fyrir sér. Það passar alveg á vegginn. Hún spyr hann hvort hann sé svangur og hann svarar játandi. Hún opnar ísskápinn. Þar er einn líter af mjólk og útrunninn skyrdolla. Eftir smá tíma kallar hún á hann og þau setjast við borðið. Hún skenkir hafragrautnum. Þau horfa hugsi á hvort annað. Kannski- bara kannski er hamingjan á næsta horni.

ps.þakkir til Kristjönu


velmegunarpappír

Ég stóð undrandi fyrir framan klósettpappírshilluna í Bónus. Ég var vön að "leyfa" mér að kaupa Andrex pappírinn þar sem hann er rosalega mjúkur og endingagóður... En þarna stóð ég og hugsaði með mér hvað ég gæti gert. Einn pakki kostar nær 1000 krónur. Púfff.... Ég fór alvarlega að spá í hvað fólk í þróunarlöndunum gerði sem ekki hefði neinn pappír- það notar kannski einhvern gróður eða hvað? Kannski gæti ég týnt mosa til að nota. Ég ákvað að ég væri ekki alveg komin á það stig, þannig að ég greip næstdýrasta pappírinn á 798 krónur. Ég er handviss að velmegunarpappírinn er besti pappírinn en nú verður maður að sætta sig við minna.

 


Miklu hærri tala

 Alls eru 11.305 skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun. Þar af eru 7.101 karl á atvinnuleysisskrá en 4.204 konur. Á höfuðborgarsvæðinu eru tæplega sjö þúsund manns á atvinnuleysisskrá, samkvæmt vef Vinnumálastofnunar. Skráð atvinnuleysi í desember 2008 var 4,8% eða að meðaltali 7.902 manns.

 Og ég er ekki einu sinni búin að skrá mig atvinnulausa. Þann 1.febrúar mun þessi tala hækka rosalega mikið- þá komum við sem misstum vinnuna í október/nóvember. Úff.... Ég giska á að það séu um 15 þúsund að ráfa um göturnar í leit að vinnu.

Gangi ykkur öllum vel sem misstuð vinnuna og munið að þið eruð ekki ein.

serious-about-being-unemployed


mbl.is Yfir 11.300 atvinnulausir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hámark letinnar

Ég átti pantaðan tíma í plokkun og litun í morgun klukkan hálftíu. Maður getur nú ekki fengið "kreppukonulookið" þar sem maður er nú á atvinnumarkaðnum og verður að reyna að líta vel út. Ég var orðin frekar loðin og taldi vera kominn tími til. Ég sendi fjölskylduna út úr húsi og skreið aftur upp í rúm, stillti klukkuna á 8.40. Þegar klukkan hringdi var ég svo rosalega þreytt (veit ekki alveg af hverju) að ég ákvað að hringja og afpanta tímann sem ég átti. Til hvers að vakna svona snemma þegar maður hefur allan daginn?? Ég fór svo aftur að sofa og var ótrúlega ánægð með ákvörðunina- en loðin...

miðvikudagur til mæðu, Sparnaðarráð nr.3

Það snjóar og snjóar og bíllinn minn er ekki á vetrardekkjum þar sem við erum að spara... hömm hömm. Borgar sig kannski ekki að spara þarna. Þannig að ég er föst heima þar til bíllinn á nöglunum kemur heim..

Sparnaðarráð nr. 3 : Á hverjum miðvikudegi er frítt á Þjóðminjasafnið og hægt að valsa þar um allan daginn án þess að það kosti neitt! Til þess að vera ennþá menningarlegri, er hægt að fara á Listasafn Íslands og Reykjavíkur alla daga vikunnar því það er alltaf frítt. Ég gæti drukkið í mig menningu án þess að þurfa að borga nokkurn skapaðan hlut. Það er bara frábært!

Nú erum við hjónin farin að selja nokkra hluti- við seldum Playstation 3 tölvuna okkar í gær með leikjum og öllu. Ótrúlegt að þó að ég notaði hana nánast aldrei, þá er einhver hola í sjónvarpshillunni sem ég er ekki að fíla- þar sem tölvan var. Snöft snöft.


bókitíbók

Ég er að lesa svo frábæra bók sem er akkúrat fyrir mig, ég er alveg að vera búin með hana og hún er ótrúlega skemmtileg. Hún heitir Draumaveröld Kaupalkans. Ég fékk alveg dúndur hugmynd í gærkveldi þegar ég var að lesa hana. Þessi hugmynd mun leysa öll mín atvinnuvandamál. Það var bara svo ótrúlegt að ég hafi ekki fengið þessa hugmynd fyrr. Ég get unnið heima, sofið lengur og farið í Kringluna fyrir peninginn sem ég vinn mér inn!! Nei, ég ætla ekki að selja Herbalife... Ekki alveg. Ég ætla að skrifa bók!! Ég gæti kannski skrifað bók um unga konu sem verður atvinnulaus- eða einhverja spennubók. Ótrúlega einfalt! Best að byrja í dag að hugsa um eitthvað til að skrifa. Ég gæti sett mér markmið;

1. bókin þarf að vera fyndin og ótrúlega skemmtileg.

2. hún þarf að vera raunveruleg

3. og á að gerast á Íslandi

Jah, það er alla vega auðveldara að skrifa bók en að finna upp á einhverju sniðugu sem maður getur orðið ríkur af. Miklu auðveldara.


hvatningarorð

Sumir halda að það að missa vinnuna sé eitt það versta sem getur komið fyrir mann, að maður missi trú á sjálfum sér og stöðugleika í lífinu. Að missa vinnuna var að sjálfsögðu erfitt fyrir mig en ég vissi samt að ég hefði ekki getað gert neitt öðruvísi til að halda í hana- að þetta væri ekkert persónulegt. Stundum hugsaði ég um hvert einasta smáatriði og átti það til að vera leið og reið til skiptis og tók því sem persónulegu að hafa misst vinnuna. Eftir smá tíma sá ég að það væri ástæðulaust að hugsa neikvæðar hugsanir um eitthvað sem hreinlega skiptir ekki máli.

Að sjálfsögðu skipta peningar og vinna einhverju máli- en nýlega, þegar ég sat í kirkjunni og hlustaði á minningarorð, uppgötvaði ég að atvinnuleysi skiptir bara engu máli. Það er heilsa mín og annarra í kringum mig, það er að geta lifað nógu lengi til að sjá barnabörn sín, eyða tíma með fjölskyldunni, elska og vera elskuð.

Ekki eyða tímanum í að pæla í smáatriðunum, lífið er of stutt til þess. Ekki hugsa um hlutina sem þið hefðuð getað keypt- hugsið frekar um tímann sem þið eyðið með öðrum til að skapa minningar.

Ég skrifa þetta því stundum þarf maður smá áminningu á hvað er mikilvægt í lífinu.

success_and_happiness

 


Martröð í Kringlunni...

Ég ákvað að skella mér í Kringluna til að athuga hvort orðrómur um "okurútsölur" væri réttur. Ég þurfti að kaupa eitt stykki afmælisgjöf og var búin að ákveða að hún mætti kosta um tvö þúsund krónur- enda var þessi gjöf ætluð barni. Mér datt fyrst í hug að kíkja í Hagkaup á dótið þar- því það fæst ekki dót annars staðar í Kringlunni. Á leiðinni í Hagkaup staldraði ég við í hinum ýmsu búðum og var fegin því að ég ætti engan pening- enda var allt svo fokdýrt og ég hefði hvort sem er ekki komist í afgangana sem eftir voru í búðunum, ekki einu sinni þó ég myndi nota skóhorn. Það voru bara small (litlar) stærðir eftir og velti ég því fyrir mér hver hefði keypt upp stærðirnar þar sem allt var svo dýrt.

Þegar ég kom inn í Hagkaup, gekk ég bjartsýn innst inn í búðina þar sem dótið var. Ég rak augun í pinkulítil dýr og mundi að þau hefðu nú alltaf verið frekar ódýr. Eitt lítið dýr- þúsund kall! Afmælisbarnið hefði örugglega farið að grenja þó hún hefði fengið tvö stykki þar sem það hefði verið hægt að skella gjöfinni í rassvasann. Ég gekk enn bjartsýn innar í búðina og sá þar föndurdót sem ég hafði keypt í USA (Ameríku) á 14.99 dollara í nóvember. Ég ákvað að kaupa svona þar sem þetta var ótrúlega sniðugt. Þá rak ég augun í verðið; 5299 krónur!!! Ég leitaði eftir símanum og ætlaði að hringja í neyðarlínuna, því þetta var neyðartilvik. Mig svimaði og ég gekk hröðum skrefum út úr búðinni, ó mæ god (guð minn góður), þvílíkt fokketí fokk.

Hálftíma síðar eftir að hafa ráfað um Kringluna í öðrum heimi, úr einni búð í aðra- með bauga og svita, fann ég loks eitthvað. Hvenær varð svona erfitt að finna afmælisgjöf??


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband