miðvikudagur til mæðu, Sparnaðarráð nr.3
14.1.2009 | 11:15
Það snjóar og snjóar og bíllinn minn er ekki á vetrardekkjum þar sem við erum að spara... hömm hömm. Borgar sig kannski ekki að spara þarna. Þannig að ég er föst heima þar til bíllinn á nöglunum kemur heim..
Sparnaðarráð nr. 3 : Á hverjum miðvikudegi er frítt á Þjóðminjasafnið og hægt að valsa þar um allan daginn án þess að það kosti neitt! Til þess að vera ennþá menningarlegri, er hægt að fara á Listasafn Íslands og Reykjavíkur alla daga vikunnar því það er alltaf frítt. Ég gæti drukkið í mig menningu án þess að þurfa að borga nokkurn skapaðan hlut. Það er bara frábært!
Nú erum við hjónin farin að selja nokkra hluti- við seldum Playstation 3 tölvuna okkar í gær með leikjum og öllu. Ótrúlegt að þó að ég notaði hana nánast aldrei, þá er einhver hola í sjónvarpshillunni sem ég er ekki að fíla- þar sem tölvan var. Snöft snöft.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
bókitíbók
12.1.2009 | 19:52
Ég er að lesa svo frábæra bók sem er akkúrat fyrir mig, ég er alveg að vera búin með hana og hún er ótrúlega skemmtileg. Hún heitir Draumaveröld Kaupalkans. Ég fékk alveg dúndur hugmynd í gærkveldi þegar ég var að lesa hana. Þessi hugmynd mun leysa öll mín atvinnuvandamál. Það var bara svo ótrúlegt að ég hafi ekki fengið þessa hugmynd fyrr. Ég get unnið heima, sofið lengur og farið í Kringluna fyrir peninginn sem ég vinn mér inn!! Nei, ég ætla ekki að selja Herbalife... Ekki alveg. Ég ætla að skrifa bók!! Ég gæti kannski skrifað bók um unga konu sem verður atvinnulaus- eða einhverja spennubók. Ótrúlega einfalt! Best að byrja í dag að hugsa um eitthvað til að skrifa. Ég gæti sett mér markmið;
1. bókin þarf að vera fyndin og ótrúlega skemmtileg.
2. hún þarf að vera raunveruleg
3. og á að gerast á Íslandi
Jah, það er alla vega auðveldara að skrifa bók en að finna upp á einhverju sniðugu sem maður getur orðið ríkur af. Miklu auðveldara.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
hvatningarorð
11.1.2009 | 22:55
Sumir halda að það að missa vinnuna sé eitt það versta sem getur komið fyrir mann, að maður missi trú á sjálfum sér og stöðugleika í lífinu. Að missa vinnuna var að sjálfsögðu erfitt fyrir mig en ég vissi samt að ég hefði ekki getað gert neitt öðruvísi til að halda í hana- að þetta væri ekkert persónulegt. Stundum hugsaði ég um hvert einasta smáatriði og átti það til að vera leið og reið til skiptis og tók því sem persónulegu að hafa misst vinnuna. Eftir smá tíma sá ég að það væri ástæðulaust að hugsa neikvæðar hugsanir um eitthvað sem hreinlega skiptir ekki máli.
Að sjálfsögðu skipta peningar og vinna einhverju máli- en nýlega, þegar ég sat í kirkjunni og hlustaði á minningarorð, uppgötvaði ég að atvinnuleysi skiptir bara engu máli. Það er heilsa mín og annarra í kringum mig, það er að geta lifað nógu lengi til að sjá barnabörn sín, eyða tíma með fjölskyldunni, elska og vera elskuð.
Ekki eyða tímanum í að pæla í smáatriðunum, lífið er of stutt til þess. Ekki hugsa um hlutina sem þið hefðuð getað keypt- hugsið frekar um tímann sem þið eyðið með öðrum til að skapa minningar.
Ég skrifa þetta því stundum þarf maður smá áminningu á hvað er mikilvægt í lífinu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Martröð í Kringlunni...
10.1.2009 | 00:54
Ég ákvað að skella mér í Kringluna til að athuga hvort orðrómur um "okurútsölur" væri réttur. Ég þurfti að kaupa eitt stykki afmælisgjöf og var búin að ákveða að hún mætti kosta um tvö þúsund krónur- enda var þessi gjöf ætluð barni. Mér datt fyrst í hug að kíkja í Hagkaup á dótið þar- því það fæst ekki dót annars staðar í Kringlunni. Á leiðinni í Hagkaup staldraði ég við í hinum ýmsu búðum og var fegin því að ég ætti engan pening- enda var allt svo fokdýrt og ég hefði hvort sem er ekki komist í afgangana sem eftir voru í búðunum, ekki einu sinni þó ég myndi nota skóhorn. Það voru bara small (litlar) stærðir eftir og velti ég því fyrir mér hver hefði keypt upp stærðirnar þar sem allt var svo dýrt.
Þegar ég kom inn í Hagkaup, gekk ég bjartsýn innst inn í búðina þar sem dótið var. Ég rak augun í pinkulítil dýr og mundi að þau hefðu nú alltaf verið frekar ódýr. Eitt lítið dýr- þúsund kall! Afmælisbarnið hefði örugglega farið að grenja þó hún hefði fengið tvö stykki þar sem það hefði verið hægt að skella gjöfinni í rassvasann. Ég gekk enn bjartsýn innar í búðina og sá þar föndurdót sem ég hafði keypt í USA (Ameríku) á 14.99 dollara í nóvember. Ég ákvað að kaupa svona þar sem þetta var ótrúlega sniðugt. Þá rak ég augun í verðið; 5299 krónur!!! Ég leitaði eftir símanum og ætlaði að hringja í neyðarlínuna, því þetta var neyðartilvik. Mig svimaði og ég gekk hröðum skrefum út úr búðinni, ó mæ god (guð minn góður), þvílíkt fokketí fokk.
Hálftíma síðar eftir að hafa ráfað um Kringluna í öðrum heimi, úr einni búð í aðra- með bauga og svita, fann ég loks eitthvað. Hvenær varð svona erfitt að finna afmælisgjöf??
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ekkert stress
8.1.2009 | 01:16
Ég stóð í Nóatúni og beið eftir að laxinn minn yrði flakaður. Ég fór að hugsa um líf mitt fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar ég hljóp inn í búðina til að grípa það nauðsynlegasta, pirraðist yfir biðinni í kjötborðið og hljóp svo til að borga svo ég yrði fljótari. Líf mitt var ávallt á hlaupum þar sem tíminn var dýrmætur og var enginn ástæða að sóa honum í svona tilgangslausa hluti. Ég var með hnút í maganum yfir hvað ætti að vera í matinn, hvort ég myndi ná ljósinu og hvort ég hefði munað eftir að kveikja á þvottavélinni áður en ég fór í vinnuna.
Þarna stóð ég í rólegheitum, horfði á fólkið í búðinni, velti fyrir mér hverjir væru í sömu sporum og ég og hverjir ekki. Ég brosti til manns með grátandi barn á arminum og þegar afgreiðslukonan sagði mér að ég þyrfti að bíða aðeins lengur eftir flakinu, sagði ég bara að það væri ekkert mál. Ég fylgdist með konu pirrast yfir stráknum sem viktaði plokkfiskinn fyrir hana og hugsaði með mér að ég hafi verið hún fyrir nokkrum mánuðum.
Nú horfir lífið öðruvísi við og stend ég bara róleg þar til röðin kemur að mér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
skóli
7.1.2009 | 14:13
Líf mitt snýst þessa dagana um að sofa, borða, horfa á sjónvarpið og sofa. Heilinn minn er kominn í svokallað "standby" ástand og ég virðist ekki koma neinu í verk. Ég horfi á jólatréð og veit að það þarf að fara niður en fæ mig ekki til að gera neitt í því.
Nú hef ég ákveðið að setjast aftur á skólabekk til þess að koma heilanum í gang og nýta þennan mikla tíma sem ég hef. Þá hitti ég líka annað fólk en það sem er í sjónvarpinu eða í búðinni, þarf að rífa mig framúr á morgnana til að mæta í skólann og koma skipulagi á lífið. Hálft ár í háskólanum kostar 32.500 krónur en þar sem ég er í VR, munu þeir greiða helminginn af skólagjöldunum- þannig að þetta er næstum því gefins.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
skítalykt
6.1.2009 | 08:45
Fyrir ári síðan keypti ég hlut í "litlu" fyrirtæki sem heitir Flaga Group, eyddi þar um 70 þúsund krónum. Ég taldi þetta vera fína fjárfestingu þar sem sterkir aðilar voru að baki þessa fyrirtækis. Þegar það var svo afskráð úr Kauphöllinni í vor, ákvað ég að eiga bara minn hlut í fyrirtækinu og sá fyrir mér, þar sem ég ætti nú 50 þúsund hluti í fyrirtækinu, að þetta myndi örugglega skila sér einhvern tímann í náinni framtíð. Í 6 mánaða uppgjörinu kom í ljós að fyrirtækið var farið að skila hagnaði upp á nokkur hundruð milljónir og var ég bara rosalega ánægð með þetta.
Í gær fékk ég svo bréf frá Lex lögmannsstofu. Þegar ég opnaði bréfið gaus upp skítafýla, svo slæm að ég þurfti næstum því að halda fyrir nefið. Ég hóf lesturinn og las að færa ætti eignahlut Flaga Group yfir í annað félag og sá ég fljótt að um yfirtökutilboð væri að ræða. Ég hugsaði- jah, þetta er nú ekki svo slæmt, mig vantar svosem pening núna. Bréfið var 2 bls og rann ég hratt í gegnum það, las um erfiðleika félagsins en ég blés nú svosem á það þar sem fyrirtækið væri nú gott og allt það. Mér var tjáð að ég ætti að gefa upp reikningsnúmer til þess að hægt væri að leggja inn á mig og ég var strax farin að sjá að nú kæmist ég kannski á útsölur eða gæti keypt bara eitthvað fyrir allan peninginn. Kannski sett peningana upp í frí fyrir fjölskylduna eða jah, farið í nudd. Já, það er góð hugmynd, eyða peningunum í einhverja vitleysu.
Svo las ég áfram.... "Þú átt því 34,69 hluti í fyrirtækinu í dag. Ha? Hverju missti ég af, átti ég ekki 50 þúsund hluti? Já, þeir voru að lækka hlutafé fyrirtækisins... Svo stóð að ég fengi að leysa út bréfin á genginu 1. Bíddu, 34,69 sinnum 1- það er... 34,69! Það er minni peningur en kostaði að senda mér bréfið! Ég verð að segja að það er skítalykt af þessu... Ekkert nudd fyrir mig á næstunni...
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ertu búin að missa vinnuna?
5.1.2009 | 16:57
Þegar ég hitti kunningja á förnum vegi, gamla samstarfsfélaga, vini eða fjölskyldu- fæ ég oft spurningar eins og
" hvernig ganga málin hjá þér?"
"Eitthvað að frétta?"
"hva, ertu ennþá með vinnu?"
Fólk er að sjálfsögðu bara að vera kurteist og jafnframt svolítið forvitið sem er bara ágætt, en stundum hljómar það eins og maður sé haldinn banvænum sjúkdómi eða eitthvað. Fólk veit ekki alveg hvað það á að segja þegar maður flytur þau tíðindi að maður hafi misst vinnuna. Sumir segjast samhryggjast eins og einhver hafi dáið, aðrir fá tár í augun.
Ég er eins og gefur að skilja orðin frekar þreytt á þessum samræðum þó ég tali mjög opinskátt um ástandið mitt. Stundum finnst mér ágætt að ræða málin- stundum ekki. Ég er þó komin með lausn á þessu vandamáli- ég ætla að láta hanna bol sem á stendur : "ég er atvinnulaus og hef það fínt". Ég gæti líka átt fleiri boli með áletrunum eins og "þú mátt endilega spyrja mig hvernig ég hafi það" eða mig vantar vinnu, getur þú reddað mér?" Þannig er hægt að forðast þessar spurningar en um leið hægt að koma sér á framfæri.
Ef þig vantar svona boli, láttu mig vita :) hmmm.... kannski komið atvinnutækifæri þarna....
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Reykjavík- Andabær
3.1.2009 | 15:47
Hæ hæ,
Ingasína hérna að blogga frá Andabæ. Mig langar að segja ykkur aðeins frá þessum fallega bæ. Besta vinkona mín er Andrésína. Hún á kærasta sem heitir Andrés og er hann svolítið seinheppinn- greyið. Hann missir mjög oft vinnuna og erum við núna á sömu hillu- bæði atvinnulaus.. Andrés á gamla dollu sem hann keyrir á, en það er eins og honum sé alveg sama um hin veraldlegu gæði- þar til hann hittir Hábein. Hábeinn er rosalega heppinn enda hefur hann fengið það ágæta viðurnefni. Hann keyrir um á glæsibifreiðum, nælir í sætustu stelpurnar og fær allt upp í hendurnar í orðsins fyllstu merkingu. Hann þarf ekki einu sinni að vinna!!
Andrés á frænda sem heitir Jóakim. Jóakim er ríkasti maðurinn í Andabæ og einn af þeim ríkustu í öllum heiminum. Hann á byggingar, verslanir og fullan kassa af peningum. Hann á að vísu svo mikið af peningum að hann getur synt í þeim! Andrés vinnur stundum smá fyrir hann, en hann fær svo illa borgað að það er varla þess virði. Ég sótti einu sinni um vinnu hjá Jóakim við að fægja peninga, en ég átti að fá 3 aura á tímann! Jóakim hefur náð að vera svona ríkur með klækjum, svikum og prettum. Andrés sagði mér að frændi hans sé ekkert sérstaklega hamingjusamur, hann er alltaf að hugsa um Bjarnarbófana og Hexíu. Svo hefur hann hrakið vini sína í burtu- fyrir utan einstaka önd sem límir sig á ríkt fólk. Erkióvinur Jóakims er Gull-Ívar eða Jói Rokkafellir. Hann er næst ríkastur á eftir Jóakim. Þeir sækjast oft í sömu hlutina og eiga í "fjármálastríði". Þeir eru báðir jafnslæmir. Gull- Ívar býr að vísu ekki í Andabæ, hann býr nú í öðru landi, gæti verið eitthvað með skattinn að gera (??)
Jæja, best að fara til Andrésínu, við ætlum að búa til límonaði.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
árið 2009
2.1.2009 | 00:18
Jæja, nýtt ár gengið í garð- oddatöluár, er það betra eða verra? Ég settist niður í gærkveldi og setti mér markmið fyrir árið eins og að fara að minnsta kosti tvisvar upp á Esju, fá vinnu, spara pening og lesa meira.
Nú er kominn janúar og ég er búin að vera atvinnulaus síðan á síðasta ári! Nú er um að gera að spýta í lófana og koma sér á framfæri hvarvetna. Ég ætla að setja upp plan og fara eftir því. Góður vinur minn sem líka var atvinnulaus, setti allt upp í Excel, þe. hvar hann sótti um vinnu, tengilið, hvenær hann sendi inn umsókn, símanúmer og hvenær hann ætti að hringja til að minna á sig. Þannig náði hann að halda utan um allar sendar umsóknir. Hér ber að geta að þessi vinur er kominn með vinnu núna og óska ég honum innilega til hamingju. Mér finnst þetta ótrúlega gott plan hjá honum og ætla mér að hanna svona skjal í næstu viku þegar jólin eru búin.
Svo er ég byrjuð á fyrstu bókinni minni á þessu ári- Draumaveröld kaupalkans, hentar mjög vel miðað við líðandi stund. Ég náði líka að leggja uppsafnaða vexti inn á sparnaðarbók og munu þeir koma sér vel síðar á árinu. Þetta voru heilar 14 þúsund krónur. Ég get keypt 7 pakka af bleijum eða 14 pakka af Andrex klósettpappír fyrir þennan pening. Mun væntanlega koma sér ótrúlega vel.
Ég hef uppgötvað það eftir að vera farin að finna svolítið fyrir sultarólinni, að lífið er bara rosalega gott án mikilla peninga. Ég hef í staðinn eytt meiri tíma með fjölskyldunni heldur en að eyða peningum. Svo er ég farin að gera við göt á fötum í staðinn fyrir að henda þeim og er það bara frábært að læra svona nytsamlega hluti.
Nú eru 4 dagar í að stöð 2 verði lokað og hef ég náð að undirbúa þá kveðjustund vel. Ég hef uppgötvað heim niðurhals (loksins segja sumir) og ber að geta hér að það er fullkomlega löglegt. Þarna sparast 6400 krónur á mánuði þar sem stöð 2 mun hækka um 10% frá 1.janúar. Það er næstum því hægt að fylla á bílinn fyrir svona upphæð!
Góðan daginn eða góða nótt...
Over and out.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)