Já sæll, hvert fór séreignasparnaðurinn minn???
13.3.2009 | 09:50
Ég beið spennt eftir að frumvarp um séreignasparnað yrði samþykkt, því samkvæmt heimabankanum mínum átti ég 1,3 milljón. Það var frábært og átti að leysa allan vanda fjölskyldunnar, við ætluðum að vera ótrúlega skynsöm og nota peninginn til að greiða inn á lán. Ég borgaði í þennan sparnað í 4 ár, en var alltaf svolítið skeptísk varðandi það að leggja pening inn í banka sem ekki mátti hreyfa í tugi ára. Ég gerði það nú samt og skráði mig í svokallað æviskeið í bankanum- því yngri- því meiri áhætta. Þetta var sú leið sem allir mæltu með og veit ég það þar sem ég er gamalreynd bankamanneskja.
Ég talaði við bankann minn í gær og kom þá í ljós að staðan í heimabankanum var ekki rétt. Það átti eftir að setja inn núverandi gengi séreignasparnaðarins. Hmmmm... já sæll. Nú kemur í ljós að ég á ekki nema 690 þúsund, sem er um helmingi minna! Hvers vegna er þessi sparnaður ekki ríkistryggður eins og svo margt annað??
Ég er viss um að það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir þessari rýrnum og vildi ég vekja athygli á þessu. Mesta rýrnunin er hjá ungu fólki (18-40 ára) sem hefur borgað í séreignasparnað og er skráð í æviskeið hjá bönkunum.
Að finna hagkvæma lausn á vandanum
12.3.2009 | 14:38
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
púfff.... sparnaðurinn horfinn
11.3.2009 | 14:48
Ég hef lært að leggja eitthvað til hliðar í gegnum tíðina, enda er ég þaulreynd bankamanneskja. Ég passaði upp á það að leggja ekki öll eggin í sömu körfuna eins og ég hafði lært og greiddi því sparnað í hlutabréfasjóði, hlutabréf og inn á sparnaðarreikning. Mánaðarlega var dregið af launum mínum og sparnaðurinn hækkaði jafnt og þétt með ári hverju. Ég fékk svo yfirlit frá bankanum um hlutabréfaeign mína. Jamm.... það eru örugglega margir í sömu sporum og ég. Á síðasta ári lagði ég 130 þúsund í íslenskan hlutabréfasjóð en ég átti eitthvað þar fyrir. Nú á ég 3700 krónur. Ég keypti bréf í Exista fyrir 150 þúsund, ég á núna 130 krónur. Ég keypti hlutabréf í Flaga Group fyrir 70 þúsund, það eru núna 36 krónur. Og síðast en ekki síst keypti ég stofnbréf í SPRON fyrir um 1 milljón sem nú eru - jah, ég veit ekki hve mikils virði, enda hefur ekki verið hægt að sjá það eftir hrunið mikla. Peningarnir sem ég lagði svo inn á sparnaðarreikning hafa horfið síðustu mánuði og verið notaðir til að greiða reikninga og annað.
Ég hef greinilega ekki verið nógu skynsöm, þó svo að ég hafi haldið það þá. Ég leit á þennan sparnað sem gott veganesti inn í framtíðina og gæti jafnvel einn daginn keypt lítið hús utan um fjölskyldu mína. Eftir sit ég með sárt ennið og engan pening. Sem betur fer er ég ung og á eftir að klóra mig út úr þessu, en hvað með hina sem ekki hafa eins langan tíma og ég?
Maður verður að vera jákvæður og segja að maður hafi lært af þessu öllu saman þó svo að þetta hafi verið dýr lærdómur.
sannleikskorn um eyðslu..
11.3.2009 | 01:18
Þegar maður er atvinnulaus, heyrir maður oft setninguna "hva, hefur þú efni á þessu, ertu ekki atvinnulaus"? Ég tel mig vera mjög skynsama en að sjálfsögðu getur maður ekki hangið heima að telja peninga allan daginn. Ég hef lært að hægt er að fara í bíó undir þúsund kalli með því að fara bara í bíó á ódýrum dögum og taka með "nesti". Myndin er alveg jafngóð og maður fer sáttur heim. Það vill oft til að einhver vinnandi vilji hitta mig í hádeginu og þá vel ég frekar ódýran stað og sleppi því að fá mér gos með matnum- sem ég hefði áður ekki gert.
Óafvitandi þegar maður er að spara, lærir maður að nota minna af ákveðnum nauðsynjum, eins og tannkremi, klósettpappír (nota báðar hliðar- eða þannig), minna sjampó og minna af uppþvottaefni, því allt telur.
Ég hef komist að því að þegar ég fer að vinna, verð ég ríkari ef ég held áfram að spara eins og ég hef gert, því ótrúlegt en satt- kemst maður af með minna en maður heldur og nær samt að vera hamingjusamur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
loksins loksins...
10.3.2009 | 14:55
... er þetta frumvarp gengið í gegn og hef ég beðið eftir því í smá tíma. Þessi upphæð, þó svo að hún sé ekki há eftir að maður er búinn að borga skatt af henni, hjálpar auðvitað eitthvað í baráttunni við skammtímaskuldir heimilanna. Ég get alla vega sagt það að þessi upphæð er kærkomin á mínu heimili.
Frumvarp um skyldusparnað samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5 mánuðir
8.3.2009 | 23:38
Ég var búin að ákveða það að taka til í fataskápnum, vera í workouti 5 daga vikunnar- tvo tíma í senn, lesa eina bók á viku og hafa allt hreint og fínt heima hjá mér alla daga vikunnar. Nú eru að verða liðnir 5 mánuðir og ótrúlegt að segja frá því. 5 mánuðir, það er meira en hálf meðganga, það er næstum því hálft ár. Ég ætlaði að vera ein með sjálfri mér að dúlla mér við lesturinn og heimilisstörfin, fara í ræktina þegar væri rólegt og vera fyrst mætt í Bónus þegar tilboðin kæmu. Ég ætlaði að drekka nýpressaðan grænmetissafa á hverjum morgni á meðan ég læsi Fréttablaðið og hlustaði á útvarpið.
Ég gleymdi því alveg að maður getur ekki endalaust verið að dúlla sér einn. Ég gleymdi alveg að taka það með í reikninginn að kannski þyrfti ég að rækta félagslegu hliðina líka.
5 mánuðir... það eru 150 dagar, sem er slatti. Ég verð að viðurkenna að þetta planaða dúllerí mitt er ekki eins skemmtilegt og ég hélt. Ég hugsaði eins og vinnandi móðir með lítinn tíma fyrir sjálfa sig.
Markmiðið mitt núna eru að taka einn dag í einu og sjá svo til.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
good impression
8.3.2009 | 10:18
Þegar maður er í atvinnuleit, skiptir miklu máli að koma vel fyrir hvert sem maður fer. Maður þarf að hafa sig til þegar maður fer út úr húsi, brosa og vera kurteis. Maður veit nefnilega aldrei hvern maður hittir og því er þetta mikilvægt.
Ég fór í veislu um daginn ásamt spúsanum. Ég ákvað að koma vel fyrir, vera kurteis og brosa eins og reglurnar segja til um. Við þekktum aðeins örfáa í veislunni. Ég týndi smá matarkyns í servíettuna og glas af gosi og brosti allan tímann. Við ákváðum að fara upp stiga og setjast í borðstofuna. Ég gekk löturhægt upp stigann og gætti þess að missa ekki servíettuna og brosið. Þegar upp var komið sátu um 10 manns sem ég ekki þekki í einu horninu. Ég ákvað að heilsa fólkinu, brosti og rann í hálfsplitt- með servíettuna og gosið. Þetta var ekki sérlega gott þar sem ég hef sjaldan verið sögð vera liðug manneskja. Svona slys kalla á hröð viðbrögð! Spúsinn hljóp til að þurrka upp gosið af gólfinu og ég stóð upp brosandi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Súper form eftir kreppu
6.3.2009 | 14:04
Það mættu sumir taka Ísafjarðarbæ til fyrirmyndar. Þetta er frábært framtak því það er mjög mikilvægt að fara á lappir þegar maður er atvinnulaus og svitna smá- ég tala ekki um að hitta aðra í ræktinni.
Ég heyrði einnig í útvarpinu að það er frítt í sund fyrir alla á Akureyri og á Suðurnesjum. Hvar er Reykjavík?
Þegar allt kemur til alls verður landinn örugglega í súper formi eftir þessa kreppu- fólk borðar minna og fer oftar í ræktina. Það hlýtur bara að vera.
Atvinnulausum boðið í ræktina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
You are my idol....
6.3.2009 | 10:22
Þegar ég var 11 ára gömul átti ég þá ósk heitasta að hitta Michael Jackson á Neverland búgarðinum hans og fá að skoða öll dýrin í garðinum. Ég átti plaköt, stuttermaboli, pússluspil, hálsmen og allar kasetturnar að sjálfsögðu. Á lögin hans hlustaði ég daginn út og inn og keypti Bravo blöð til að klippa út myndir og líma í bók. Ég fór í Michael Jackson dansa, límdi puttana á mér með hvítu teipi og setti á mig grifflu. Hann var goðið mitt og því mun ég aldrei gleyma. Mig hefur alltaf langað til að fara á tónleika með honum. Ég myndi örugglega ýta mér leið til að vera fremst og væla yfir að fá loksins að líta goðið augum.
Nú er Mikki (það er nikkið hans) að fara að flytja síðustu tónleika á ferlinum og er ég í öngum mínum yfir að ég muni líklegast aldrei nokkurn tímann fara á tónleika með honum. Mér finnst það hið mesta óréttlæti þar sem hann er goðið mitt.
Hér er uppáhalds lagið mitt með honum fyrr eða síðar- a bin no get no (Dirty Diana) sem ég söng hástöfum ellefu ára. Michael, this is for you....
Jackson heldur lokatónleika í Lundúnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
ekki taka frá öðrum
4.3.2009 | 21:18
Ég er svo miður mín og búin að vera það síðan í gær þegar ég uppgötvaði að einhver stal táfýlunni minni í World Class ásamt Asics skónum sem ég fékk í jólagjöf. Ég virðist hafa gleymt skónum en daginn eftir þegar ég hringdi í World Class, fundust hvorki skórnir né táfýlan. Ef ég fyndi svona skó á gólfinu, myndi ekki einu sinni hvarfla að mér að taka þá, ég myndi fara beint í afgreiðsluna og skila skónum.
Ég vona alla vega að sú sem tók skóna hafi gert það af því að hún er fátæk og á enga skó.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)