oh, þú ert svo heppin...

 

Að sofa út eru forréttindi sem atvinnulausir hafa, að vísu reyni ég að sofa ekki út nema kannski einu sinni í viku en þeir sem vinna, telja það að öllum líkindum mikinn lúxus. Einhverjir hafa skotið að mér að ég sé heppin að vera atvinnulaus, þurfi aldrei að vakna snemma og geti bara dúllað mér alla daga. Að sjálfsögðu kemur þetta frá vinnandi fólki. Mér finnst ég ekki vera heppin, ég er óheppin og myndi glöð gefa frá mér þennan "lúxus" á augabragði fyrir stöðugar tekjur, gott vinnuumhverfi og að þurfa að vakna til að fara í vinnuna. Það sem gleymist einnig í þessu "heppna" tali er að atvinnulausir eiga það til að einangrast félagslega ef þeir passa sig ekki.

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að á fimmtudaginn mun ég sofa lengur, af því að ég er svo "heppin"....

sleeeep


Melónan

Ég fór í Hagkaup áðan til að kaupa einn hlut og þar var kona fyrir framan mig í röðinni sem keypti gula melónu. Hún var ekkert stór (þe. melónan) en ég sá þegar hún var vigtuð (þe. melónan) og hún kostaði 480 krónur! Mig langaði næstum því að hnippa í konuna sem stóð sveitt og setti í poka en hún virtist ekki taka eftir þessu háa verði á melónunni. Ég kenndi í brjósti um hana (ekki melónuna heldur konuna) að hún hafi ekki uppgötvað það sem ég hef síðustu mánuði- að spara.

ha... sagði einhver útlönd???

Þegar maður missir vinnuna er mikilvægt að maki manns stendur með manni. Ég segi þetta ekki bara af því að það er gáfulegt, heldur er það í alvöru mikilvægt. Þegar það voru til peningar, gat maður leyft sér hluti eins og að fara til útlanda og fara út að borða og njóta þannig nærveru hvors annars. Hraðinn í þjóðfélaginu var einnig svo mikill að þetta var kannski eini tíminn sem fannst til að vera saman. Nú þegar það eru engir peningar, þurfa hjón að finna eitthvað annað skemmtilegt að gera saman, sum hjón þurfa jafnvel að kynnast upp á nýtt og getur það oft reynst mikil þrautaganga.

Við hjónakornin erum nánari en nokkru sinni, við spilum á kvöldin (ekki öll kvöld samt), hittumst oft á tíðum við eldhúsborðið í hádeginu og náum þannig að eyða meiri tíma saman. Okkur finnst það mjög huggulegt, þó svo að það hafi nú líka verið ótrúlega gaman að fara til útlanda.

Ég held svei mér þá að ég hefði átt að verða flugkona, ég veit fátt skemmtilegra en að fara í flugvél eins ótrúlegt og það virðist vera. Ég elska að keyra til Keflavíkur, fæ hnút í magann þegar fólk segist vera að fara til útlanda og svo finnst mér æðislegt að sitja í flugvél og bíða eftir að hún takist á loft. Hjá mörgum er það kvöl að fara í flugvél en það er það ekki hjá mér. Móðir mín sagði eitt sinn við mig að maður gæti sko alveg fengið leið á því að fara út ef maður færi oft, en það hefur ekki enn gerst hjá mér. Oh... bara að ég hefði orðið flugkona.

 


Sparnaðarráð nr.5

Eftir að ég fór að minnka útgjöld og spara, fór ég að taka út pening í hraðbanka í stað þess að nota debet- eða kreditkort. Að mínu mati er það mjög sniðugt því þá veit maður nákvæmlega hvað maður eyðir miklu. Á hverjum föstudegi tek ég út pening og á hann að duga út vikuna. Ég var svona kreditkortakona, veifaði bara platinumkortinu mínu og safnaði vildarpunktum hratt og örugglega. Nú sit ég uppi með fjöldann allan af punktum sem ég get að sjálfsögðu ekkert notað því ég á ekki pening til að fara til útlanda. Það kom mér alltaf jafnmikið á óvart þegar ég fékk reikninginn og sá hvað ég hafði eytt miklu en fannst samt ég ekki hafa keypt neitt.

Við eigum stóran sparigrís sem stendur í eldhúsinu og bíður eftir að fá pening, við köllum þennan grís ferðasjóðsgrísinn okkar og hefur hann staðið þarna í rúmt ár. Reglulega tæmum við hann og leggjum peninginn í banka. Í þennan grís fara einungis smápeningar, maður finnur í rauninni ekki mikið fyrir því að setja hundraðkall öðru hvoru, en annars eru þetta krónur og tíkallar. Með þessu áframhaldi munum við geta skellt okkur til útlanda þó það gerist ekki á þessu ári. Nú ætlum við að vera skynsöm og safna fyrir ferðinni áður en við förum í hana.

Á meðan læt ég mig bara dreyma og læt það nægja.


Mars til (eld)móðs

Mars verður frábær mánuður, það er ég alveg viss um. Marsmánuður verður mánuður hreystis og hamingju (pínu væmið) í mínum huga og aðalmottóið verður- carpe diem (gríptu daginn).

Ég er tilbúin með skyrdrykkja og safabókina mína, ætla að búa í ræktinni og kynnast fólki. Ekki skemmir fyrir að maður getur horft á Stöð 2 ókeypis í ræktinni á meðan kílóin gufa upp.

Annars þakka ég fyrir öll commentin í dag. Ég er ánægð með greinina en myndin er ekki alveg eins módelleg og ég vildi hafa hana. Ljósmyndarinn ákvað nefnilega að koma hálftíma of snemma þannig að ég náði ekki að púffa upp hárið og æfa pósur áður en hann kom. En, það er innihaldið sem skiptir máli sagði spekingur einu sinni.

garfield-fat


Hæfniskröfur nútímans

Helgin er á næsta leiti. Hún er mjög mikilvæg fyrir þá sem eru að leita sér að vinnu því þá koma atvinnuauglýsingar í helstu fjölmiðlum landsins. Mikil eftirvænting ríkir á mínu heimili eftir þessum auglýsingum. Það er annað hvort eða. Annað hvort er eitthvert starf með hæfniskröfur sem mín starfsreynsla og menntun uppfylla, eða ekki. Síðustu vikur og mánuði hefur atvinnublaðið verið mjög þunnt, í eitt skipti var það aðeins 2 blaðsíður og því ekki úr miklu að moða. Ég man eftir því fyrir nokkru að maður varð bara ringlaður þegar maður las blaðið því möguleikarnir voru óþrjótandi- en núna, púfff..... Maður þarf að vera með meirapróf, kunna á hin ýmsu forrit, vera með margra ára reynslu og síðast en ekki síst... hæfni í mannlegum samskiptum. Það kemur oftar en ekki fyrir. Kröfurnar spanna oft 10 -15 atriði svo að færri sæki um starfið.

Ef verið er að leita að opinni manneskju sem er með framhaldsmenntun, áralanga reynslu í banka (ég er örugglega ein á báti þar...) og er að læra að prjóna, þá er ég manneskjan í starfið. Já, og svo er ég líka jákvæð. Vonandi kemur svoleiðis auglýsing um helgina og þá skal ég vera fyrst til að sækja um! Annars þarf að bíða eftir næstu helgi og er langt að bíða fyrir manneskju eins og mig, manneskju í atvinnuleit.

rman2167l


öskudagsspeki...

Ég sat í bíl með tveimur litlum nornum og Wall-e í dag og fórum við að sníkja nammi. Þeim fannst mjög sérstakt að ég skyldi finna mér tíma til að endasendast með þeim út um allar trissur til að þefa uppi sælgæti. Þá segir önnur nornin hugsi : "þú varst rekin úr vinnunni þinni, er það ekki?" Ég reyndi þá að útskýra fyrir 7 ára börnum að þegar maður er rekinn hefur maður gert eitthvað af sér í vinnunni - en ef manni er sagt upp þá er það vegna þess að vinnan getur ekki haft mann í vinnu lengur þó svo að hana langi það. Ég bætti svo við að það væru margir sem hefðu misst vinnuna sína og hefðu því enga. Þá segir hin nornin spekingslega "já, mamma missti vinnuna þegar bankarnir fóru á hvolf". Sýnir þetta að ekki skal vanmeta litla fólkið, það veit meira en maður heldur.

 


Ævintýri í Rúmfó...

Ég lagði af stað í mikið ævintýri í dag, fór eitthvað sem ég hef ekki lagt í vana minn að fara. Ég gekk inn í Rúmfatalagerinn í Skeifunni og villtist á milli flíspeysanna og kertastjakanna, fannst svo ráðvillt í einum af sængurkörfunum þarna.

Í Rúmfó (það er það sem fastakúnnar kalla það) kennir ýmissa grasa og margt er á viðráðanlegu verði. Eftir að hafa tekið ranga beygju þegar ég leitaði að garninu, fann ég dót, rúmföt, afmæliskort og batterí.

Ég ákvað að byrja að spara og læra því að prjóna stærri hluti því hingað til hef ég aðeins getað prjónað fram og tilbaka. Ég ætla að ráðast í að prjóna kjól fyrir næstyngsta meðliminn í fjölskyldunni. Það kom mér að vísu sérstaklega á óvart hvað garn er dýrt, þessi kjóll mun væntanlega kosta mig um 3500 kall sem er alveg slatti. Gangi mér vel....

Adios.


Meðalmaðurinn..

Að leita sér að vinnu getur oft reynst erfitt og þarf oft að vera frumlegur og úrræðagóður. Einnig getur verið gott að þekkja fólk á réttum stöðum í þjóðfélaginu til þess að ýta manni áfram í ferlinu.

Ég þekki engan valdamikinn, ég er bara "average Joe" sem skoðar laus störf á helstu stöðum daglega ásamt því að sækja um í fyrirtækjum sem eru ekki að leita eins og er. Ég er manneskja sem reynir sitt besta í að finna vinnu.  Um hverja helgi koma atvinnuauglýsingar í blöðunum. Ég hleyp niður í póstkassa og fletti skjálfandi upp á auglýsingunum sem oftast eru í kringum miðju blaðsins. Ég les þær spjaldanna á milli, stundum er eitthvað sem vekur áhuga minn, stundum ekki. Það sem verst er að oftast eru engar auglýsingar sem höfða til mín, oftast er verið að leita að forriturum til að starfa í Noregi. Ég er enginn forritari. Ég er viðskiptafræðingur, ein af mörg þúsund. Helsta starfsreynsla mín eru bankastörf- já og fjárfestingar. hmmm.... hvað ætli margir séu á sömu blaðsíðu og ég? Er ég "average Joe"?

unemployment


Látum verkin tala!!!

Ég ákvað að hringja í Sambíóin í gær og tala við framkvæmdastjórann, sagði honum frá mínu "ástandi" og bað hann vinsamlega að hafa sýningu klukkan 14.00 á þriðjudögum svo að ég kæmist í bíó. Ég veit ekki alveg hvernig hann tók því, auðvitað hljómaði ég gáfuð í símanum en þetta var samt eitthvað skrýtið samtal. En.... vonandi verður þetta gert og þá skal ég mæta eins og skot!

Þjóðleikhúsið gefur öllum sem sýna fram á atvinnuleysi, einn miða á hverja sýningu í vetur. Finnst mér það frábært framtak hjá þeim. Hjá Borgarleikhúsinu fær maður afslátt- 700 krónur af miðaverði. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband