Er maður góður í einhverju?
26.1.2009 | 00:14
Ég veit ekki hvort það sé uppeldinu að þakka/kenna, en ég hef ávallt haft mikið sjálfstraust, fundist ég vera ótrúlega fyndin og klár. Ég byrjaði í handbolta 10 ára gömul og var skellt á línuna- fékk meira að segja að vera í A liðinu þegar ég var 12 ára. Einu sinni vorum við að æfa skot á mark og ég hitti í markið. Markvörðurinn var voðalega hissa og sagði að þetta væri í fyrsta skiptið sem hún hefði ekki varið frá mér. Þá uppgötvaði ég það að ég yrði aldrei stórskytta.
Ég byrjaði í blaki fyrir 3 árum síðan með nokkrum stelpum. Mér fannst ég alltaf vera svo óstjórnlega góð í blaki. Annað kom á daginn og hefði ég virkilega þurft að æfa uppköstin aðeins frekar til að ná árangri. Þau lentu oftast í netinu. Þá uppgötvaði ég að ég yrði aldrei blakdrottning.
þegar ég byrjaði í háskóla fannst mér ég vera rosalega klár, svo klár að ég þurfti varla að læra heima. Ég gat sofið aðeins lengur en hinir og mætt þegar mig langaði til. Stundum gekk þessi áætlun upp en oftast ekki. Þá uppgötvaði ég að ég þyrfti kannski að hafa aðeins meira fyrir því að ná árangri í skóla.
Ég tók smá badminton í vetur með vinnufélögunum, handviss um það að ég hefði engu gleymt frá því í badminton í grunnskóla. Hmmmm... Annað kom á daginn og ég tapaði 4 leikjum af 4- þrátt fyrir vilja eins kollega að reyna að leyfa mér að vinna.
Ég sé það núna að maður er ekki fæddur með alla heimsins hæfileika, maður getur verið betri í einu frekar en öðru en maður þarf að hafa fyrir því til að ná langt í lífinu- hvort sem er í íþróttum, skóla eða öðru. 31 árs gömul er ég að uppgötva það núna.
Athugasemdir
Þú ert kannski hvorki handboltahetja, blakdrottning né badmintonstjarna, en þú ert svo sannarlega ótrúlega fyndin og klár!
Lilja (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 12:03
Þú ert kannski ekki afrekskona í íþróttum en ég held að það sé ekki pláss í athugasemdadálkinn ef ég á telja upp allt sem þú ert góð í.
Ég skal reyna:
Þú ert góð í að ala upp börnin þín, ótrúlega skemmtileg, fyndin, góð að teikna, hugulsöm, heldur stórkostlegar veislur, góð að baka skinkuhorn, heita rétti og gúmelaði snickerstertu, FRÁBÆR SYSTIR, uppáhaldsfrænka barna minna,hugmyndarík, og, og, og, og, og, og.....
Jæja, ég þarf að vinna held áfram síðar.
Þín systir
Greta (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 12:37
vá, takk æðislega fyrir þessi sætu komment. Ég vissi að snickerstertan hefði slegið í gegn :)
Inga, 26.1.2009 kl. 12:58
Þessar pælingar hljóta að vera eitthvað tengdar aldrinum... einmitt verið að læðast að mér líka...
Held við séum nú samt bara ferlega góðar í alveg ferlega mörgu!! (Næsta mál væri til dæmis að verða snillingar í verkefnastjórnun ... með því að sjálfsögðu að byrja að lesa og glósa strax, og mæta í alla tíma ...).
Anný (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 15:52
já Anný, rétt hjá þér :) ég sá þig nú ekki í morgun.... Við verðum duglegar!!
Inga, 26.1.2009 kl. 17:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.