Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

5 mánuðir

Ég var búin að ákveða það að taka til í fataskápnum, vera í workouti  5 daga vikunnar- tvo tíma í senn, lesa eina bók á viku og hafa allt hreint og fínt heima hjá mér alla daga vikunnar. Nú eru að verða liðnir 5 mánuðir og ótrúlegt að segja frá því.  5 mánuðir, það er meira en hálf meðganga, það er næstum því hálft ár.  Ég ætlaði að vera ein með sjálfri mér að dúlla mér við lesturinn og heimilisstörfin, fara í ræktina þegar væri rólegt og vera fyrst mætt í Bónus þegar tilboðin kæmu. Ég ætlaði að drekka nýpressaðan grænmetissafa á hverjum morgni á meðan ég læsi Fréttablaðið og hlustaði á útvarpið.

Ég gleymdi því alveg að maður getur ekki endalaust verið að dúlla sér einn. Ég gleymdi alveg að taka það með í reikninginn að kannski þyrfti ég að rækta félagslegu hliðina líka.

5 mánuðir... það eru 150 dagar, sem er slatti. Ég verð að viðurkenna að þetta planaða dúllerí mitt er ekki eins skemmtilegt og ég hélt. Ég hugsaði eins og vinnandi móðir með lítinn tíma fyrir sjálfa sig.

Markmiðið mitt núna eru að taka einn dag í einu og sjá svo til. Kissing


good impression

Þegar maður er í atvinnuleit, skiptir miklu máli að koma vel fyrir hvert sem maður fer. Maður þarf að hafa sig til þegar maður fer út úr húsi, brosa og vera kurteis. Maður veit nefnilega aldrei hvern maður hittir og því er þetta mikilvægt.

Ég fór í veislu um daginn ásamt spúsanum. Ég ákvað að koma vel fyrir, vera kurteis og brosa eins og reglurnar segja til um. Við þekktum aðeins örfáa í veislunni. Ég týndi smá matarkyns í servíettuna og glas af gosi og brosti allan tímann. Við ákváðum að fara upp stiga og setjast í borðstofuna. Ég gekk löturhægt upp stigann og gætti þess að missa ekki servíettuna og brosið. Þegar upp var komið sátu um 10 manns sem ég ekki þekki í einu horninu. Ég ákvað að heilsa fólkinu, brosti og rann í hálfsplitt- með servíettuna og gosið. Þetta var ekki sérlega gott þar sem ég hef sjaldan verið sögð vera liðug manneskja. Svona slys kalla á hröð viðbrögð! Spúsinn hljóp til að þurrka upp gosið af gólfinu og ég stóð upp brosandi.

464_Unemployment


Súper form eftir kreppu

Það mættu sumir taka Ísafjarðarbæ til fyrirmyndar. Þetta er frábært framtak því það er mjög mikilvægt að fara á lappir þegar maður er atvinnulaus og svitna smá- ég tala ekki um að hitta aðra í ræktinni. 

Ég heyrði einnig í útvarpinu að það er frítt í sund fyrir alla á Akureyri og á Suðurnesjum. Hvar er Reykjavík?

Þegar allt kemur til alls verður landinn örugglega í súper formi eftir þessa kreppu- fólk borðar minna og fer oftar í ræktina. Það hlýtur bara að vera. 


mbl.is Atvinnulausum boðið í ræktina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

You are my idol....

Þegar ég var 11 ára gömul átti ég þá ósk heitasta að hitta Michael Jackson á Neverland búgarðinum hans og fá að skoða öll dýrin í garðinum. Ég átti plaköt, stuttermaboli, pússluspil, hálsmen og allar kasetturnar að sjálfsögðu. Á lögin hans hlustaði ég daginn út og inn og keypti Bravo blöð til að klippa út myndir og líma í bók. Ég fór í Michael Jackson dansa, límdi puttana á mér með hvítu teipi og setti á mig grifflu. Hann var goðið mitt og því mun ég aldrei gleyma. Mig hefur alltaf langað til að fara á tónleika með honum. Ég myndi örugglega ýta mér leið til að vera fremst og væla yfir að fá loksins að líta goðið augum.

 Nú er Mikki (það er nikkið hans) að fara að flytja síðustu tónleika á ferlinum og er ég í öngum mínum yfir að ég muni líklegast aldrei nokkurn tímann fara á tónleika með honum.  Mér finnst það hið mesta óréttlæti þar sem hann er goðið mitt.

Hér er uppáhalds lagið mitt með honum fyrr eða síðar- a bin no get no (Dirty Diana) sem ég söng hástöfum ellefu ára. Michael, this is for you....


mbl.is Jackson heldur lokatónleika í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ekki taka frá öðrum

Ég er svo miður mín og búin að vera það síðan í gær þegar ég uppgötvaði að einhver stal táfýlunni minni í World Class ásamt Asics skónum sem ég fékk í jólagjöf. Ég virðist hafa gleymt skónum en daginn eftir þegar ég hringdi í World Class, fundust hvorki skórnir né táfýlan. Ef ég fyndi svona skó á gólfinu, myndi ekki einu sinni hvarfla að mér að taka þá, ég myndi fara beint í afgreiðsluna og skila skónum.

Ég vona alla vega að sú sem tók skóna hafi gert það af því að hún er fátæk og á enga skó.


oh, þú ert svo heppin...

 

Að sofa út eru forréttindi sem atvinnulausir hafa, að vísu reyni ég að sofa ekki út nema kannski einu sinni í viku en þeir sem vinna, telja það að öllum líkindum mikinn lúxus. Einhverjir hafa skotið að mér að ég sé heppin að vera atvinnulaus, þurfi aldrei að vakna snemma og geti bara dúllað mér alla daga. Að sjálfsögðu kemur þetta frá vinnandi fólki. Mér finnst ég ekki vera heppin, ég er óheppin og myndi glöð gefa frá mér þennan "lúxus" á augabragði fyrir stöðugar tekjur, gott vinnuumhverfi og að þurfa að vakna til að fara í vinnuna. Það sem gleymist einnig í þessu "heppna" tali er að atvinnulausir eiga það til að einangrast félagslega ef þeir passa sig ekki.

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að á fimmtudaginn mun ég sofa lengur, af því að ég er svo "heppin"....

sleeeep


Melónan

Ég fór í Hagkaup áðan til að kaupa einn hlut og þar var kona fyrir framan mig í röðinni sem keypti gula melónu. Hún var ekkert stór (þe. melónan) en ég sá þegar hún var vigtuð (þe. melónan) og hún kostaði 480 krónur! Mig langaði næstum því að hnippa í konuna sem stóð sveitt og setti í poka en hún virtist ekki taka eftir þessu háa verði á melónunni. Ég kenndi í brjósti um hana (ekki melónuna heldur konuna) að hún hafi ekki uppgötvað það sem ég hef síðustu mánuði- að spara.

ha... sagði einhver útlönd???

Þegar maður missir vinnuna er mikilvægt að maki manns stendur með manni. Ég segi þetta ekki bara af því að það er gáfulegt, heldur er það í alvöru mikilvægt. Þegar það voru til peningar, gat maður leyft sér hluti eins og að fara til útlanda og fara út að borða og njóta þannig nærveru hvors annars. Hraðinn í þjóðfélaginu var einnig svo mikill að þetta var kannski eini tíminn sem fannst til að vera saman. Nú þegar það eru engir peningar, þurfa hjón að finna eitthvað annað skemmtilegt að gera saman, sum hjón þurfa jafnvel að kynnast upp á nýtt og getur það oft reynst mikil þrautaganga.

Við hjónakornin erum nánari en nokkru sinni, við spilum á kvöldin (ekki öll kvöld samt), hittumst oft á tíðum við eldhúsborðið í hádeginu og náum þannig að eyða meiri tíma saman. Okkur finnst það mjög huggulegt, þó svo að það hafi nú líka verið ótrúlega gaman að fara til útlanda.

Ég held svei mér þá að ég hefði átt að verða flugkona, ég veit fátt skemmtilegra en að fara í flugvél eins ótrúlegt og það virðist vera. Ég elska að keyra til Keflavíkur, fæ hnút í magann þegar fólk segist vera að fara til útlanda og svo finnst mér æðislegt að sitja í flugvél og bíða eftir að hún takist á loft. Hjá mörgum er það kvöl að fara í flugvél en það er það ekki hjá mér. Móðir mín sagði eitt sinn við mig að maður gæti sko alveg fengið leið á því að fara út ef maður færi oft, en það hefur ekki enn gerst hjá mér. Oh... bara að ég hefði orðið flugkona.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband