Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

komdu þér á framfæri!

Það er mjög mikilvægt að láta á sér bera þegar maður er atvinnulaus. Ótrúlega sterkur leikur er að láta útbúa nafnspjöld (ég breytti bara vinnunafnspjöldunum til að spara pening) og vera með þau á sér öllum stundum! Þú veist aldrei hvern þú hittir. Ég var til dæmis á jólaballi í dag í vinnunni hjá pabba. Á meðan börnin löbbuðu kringum jólatréð, gekk ég á milli borða og kynnti mig með því að rétta spjöldin. Þá man fólk eftir mér. Ég sagði bara- hæ ég heiti Inga, brosti og rétti spjaldið- sagði svo: er opin fyrir tækifærum. Um daginn í Kringlunni þegar ég var að dreifa spjöldum, hringdi síminn og það var einhver maður sem sagðist hafa tækifæri fyrir mig- ég held að það hafi ekki alveg verið það sem ég var að leita að- þetta var eitthvað ólöglegt- þannig að kannski er best að sleppa svona almenningsstöðum.

Gangi ykkur vel með þetta :)

ath. þetta er kannski ekki alveg sönn saga..

nafnspjöldhægt að panta ný nafnspjöld á www.prentmet.is ef þið hafið áhuga!


erfitt að skrifa..

Það er mjög erfitt að skrifa í dag, ég þarf nefnilega að skrifa með einni. Ég ákvað að fara í bíó með 6 ára dóttur minni í gær. Ég hafði val- annað hvort að borga 1950 krónur fyrir okkur tvær eða gefa annan handlegginn. Þið hafið eflaust lagt 2 og 2 saman og uppgötvað að ég tók seinni möguleikann. Ég var nú með tvo- þarf bara einn.

Það er rosalega gott að þekkja einhvern atvinnulausann, sérstaklega þegar manni vantar pössun fyrir börnin sín. Þá er hægt að fara í vinnuna áhyggjulaus og láta atvinnuleysingjann um að passa börnin.


láttu þig dreyma

Það hljóp í mig Machintosh samviskubit í dag. Ég fór í huganum að telja alla molana sem ég hafði étið síðustu daga og komst að því að það væri hreint ómögulegt verkefni. Ég ákvað því að skella mér í World Class og brenna samviskubitið í burtu. Það voru greinilega margir á sömu buxunum og ég, því það var stappað. Ég er ekki frá því að á tímapunkti þegar ég var að sækja mér vatn, hafi ég fundið karamellu/súkkulaðilykt samantvinnaða við svitalyktina í loftinu. Ég ákvað því að slútta þessu svo að ég færi ekki að grípa allar hitaeiningarnar bara með því að anda þarna inni. Það er ekki gott að taka á sig það sem aðrir eru að losa sig við.

Ég og spúsinn ákváðum í gær að pakka ofan í tösku og skella okkur til Keflavíkur með börnin, bara til að fá fílinginn þegar maður er að fara til útlanda. Það er víst næst því sem við komumst þessa dagana. Við kíktum í heimsókn til vinafólks okkar og keyrðum tilbaka. Ég náði að sjá eina flugvél og flugvélaljós. Það var rosalega skemmtilegt.

hawaii_1

hach hach hach, bara skoða...


Sparnaðarráð nr. 2

Til að spara smá símreikning er hægt að hringja í fólk og skella á áður en það nær að svara, bíða svo þangað til viðkomandi hringir í þig. Ótrúlega gott ráð en má ekki ofnota.


takk...

...kæra Jóhanna, frábært fyrir atvinnulausa-og þar á meðal mig þegar að því kemur að ég þarf á þessum bótum að halda. Vonandi kemur ekki til þess, en þetta er frábært.

 


mbl.is Flýta hækkun atvinnuleysisbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

jóla jóla jól

gleðileg jól, læt fylgja með besta nýjasta jólalagið í ár ...


Leti + atvinnuleysi

Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum mánuðum að það væri erfitt að vera atvinnulaus- hefði ég bara brosað út í annað og látið mig dreyma um að fara í ræktina á hverjum degi, sofa og sækja börnin mín snemma. Það var hugsun mín í upphafi atvinnuleysis. Ég svaf aðeins lengur, fór í ræktina eftir hádegi, kíkti í hádegismat með gömlu vinnufélögunum og fór í klippingu.Svo var þetta orðinn vítahringur, heilinn á mér slokknaði á morgnana eftir dr.Phil (búinn klukkan 9) og stundum vaknaði ég við eigin hrotur um 11 leytið- allur morgunninn farinn. Ég píndi mig til að fara í ræktina af því að ég vissi að ég hafði enga afsökun- annars gerði ég voða lítið yfir daginn. Ég hafði ekki lengur efni á að fara út að borða í hádeginu- í staðinn borðaði ég þurrt brauð með osti eða eitthvað álíka.

Ég ræddi um þetta við systur mína og kom hún þá með þá snilldarhugmynd að skrifa niður kvöldið áður- atriði sem ég þyrfti að gera daginn eftir. Þetta er ótrúlega sniðugt, því þá fellur maður ekki í þessa letigryfju sem erfitt er að komast upp úr.

Markmið mitt, þriðjudaginn 23.desember er eftirfarandi:

1.skúra og ryksuga

2. skreyta jólatré 

3. fara í skötuveislu

4. láta mér batna :)

Ótrúlega skemmtilegur dagur framundan og fullt að gera...

 


I am not alone...

...eins og þessi frétt segir til um.

http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=68790

Það er greinilega fólk eins og ég þarna úti, sem ráfar um í von um að hitta talandi fólk.

Ég fór í Bónus um daginn klukkan hálfsex. Þar hitti ég gamla vinkonu, hún horfði á mig forviða og spurði af hverju ég væri að mæta í Bónus á háannatíma, þar sem ég hefði allan daginn til að fara. Það er bara ekkert gaman að fara alltaf þegar það er enginn! Þá á maður ekki séns á að rekast á neinn sem maður þekkir!


veikindi..

ég er veik í dag- ég sem var að monta mig að því í fyrradag að ég væri aldrei veik.

Margir eru stressaðir fyrir jólin, sérstaklega nú þegar svo stutt er til jóla. Ekki ég- ég er búin að gera allt nema kaupa Malt og Appelsín og á nú betri helming til að redda því. Ég get verið veik í friði og þarf ekki einu sinni að hringja mig inn veika á morgun.

 voffi


I love you Stöð 2...

sextán dagar. Ég er farin að telja niður. Það eru 16 dagar þar til stöð 2 verður slútt á þessu heimili. Þetta eru hræðilegar fréttir þar sem ég hef verið þekkt fyrir mikinn fróðleik á sápuóperum nútímans. Ég á líklega ekki eftir að komast að því hvað verður úr sambandi Libbyar og Fritz í Grönnum, hvort Denny eigi eftir að hverfa úr huga Izzyar eða hvort Michael Scofield verði loks frjáls- eða hvort aðgerðin sem hann er að fara í, eigi eftir að heppnast. Þetta eru allt vinir mínir sem munu nú hverfa á braut eftir 16 daga.  Það er spurning að reyna að redda þáttunum - en það er bara ekki eins.

Þegar ég hringdi í Stöð 2 í byrjun desember, sagði ég upp áskriftinni með kökk í hálsinum, ég óska engum að þurfa að ganga í gegnum þennan harmleik.

Kannski verð ég bara að læra að prjóna- ein í myrkrinu, án vina minnas sem láta mig gleyma raunveruleikanum um stund. Snöft snöft...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband