Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Facebook er framtíðin...

Fyrir fólk eins og mig er Facebook aðal samskiptamátinn í dag. Þar er hægt að "njósna" um vini sína, athuga hvað maður er góður að sér í kvikmyndum og svo er líka hægt að senda gjafir... úúú... Ég þarf varla lengur að tala við fólk- kíki bara á Facebook. Með Facebook er hægt að spara heimsóknir og símareikninga, fólk þarf varla lengur að tala saman- það notar bara Facebook.

Það er spurning hvort þetta sé hollt fyrir mann, samskipti fólks fara fram í gegnum tölvuna. Það er meira að segja hægt að finna sér framtíðarmaka á Facebook!!

Svo þegar maður á afmæli, kíkir maður bara á Facebook til þess að athuga hver man eftir því og óskar manni til hamingju. Þessu var svo skemmtilega lýst í Áramótaskaupinu hér um árið, það er hægt að sjá hverjir eru að skilja, hverjir eru ófrískir osfrv.

Munið bara að hringja og hitta vini ykkar einstaka sinnum- ekki bara á Facebook!!


hver á að lúffa fyrir hverjum???

Hver ákveður það hvaða störfum sé bjargað?

Eiga sumir meira skilið að vera atvinnulausir en aðrir?

Gætir ójafnrétti hjá ríkinu að mismuna starfsfólki fyrirtækja sem hafa orðið gjaldþrota með því að "redda" sumum vinnu en ekki öðrum?

Þetta er eitthvað sem fólk ætti að velta fyrir sér, því eins og ég sé það eiga allir að hafa jafnan rétt á starfi sem misst hafa vinnunna.

Á sá sem sækir um starf hjá Kaupþingi ekki að hafa sama rétt og sá sem var að vinna hjá SPRON og missti vinnuna? Er það borðliggjandi að annar lúffi fyrir hinum og fær þá fólk jafnan séns?


ringulreið og samsæri??

Það eru að sjálfsögðu rosalega góðar fréttir að MP banki eignist SPRON, MP er traustur banki og staðfastur. Í netbankanum vinnur frábært starfsfólk og að mínu mati er það einn besti bankinn sem ég hef átt viðskipti við. En nú er ég komin í Kaupþing. Og hvað svo- skulda ég SPRON, Netbankanum, MP eða Kaupþing? Þetta er allt saman svo ruglingslegt. Best er að skýra þetta betur út fyrir fólki sem fyrst, annars skapast óþarfa ringulreið.

En var MP farinn að taka við innlánum fyrir áramót þegar þeir fengu innlánaleyfið- eða var verið að undirbúa þá fyrir eitthvað annað- eins og að kaupa heilan banka fyrir slikk? Þetta er eitthvað sem hægt væri að velta fyrir sér endalaust. Samsæri samsæri... Eru þau úti um allt eða bara í hausnum á fólki??

 


mbl.is MP banki eignast SPRON
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

leti í atvinnuleysi

Að vera atvinnulaus getur verið mjög þreytandi, svo þreytandi að maður fer að venjast því hægt og rólega. Virku dagarnir eru svo rólegir og yfirvegaðir, maður er bara í sínum eigin heimi að dúlla sér og hefur nægan tíma fyrir sjálfan sig. Þegar kemur svo að helgunum, fjölskyldan er heima og maður er í "full action", þarf alla vikuna til að sofa helgina úr sér. Þannig er það alla vega hjá mér.  Ég er bara dauðuppgefin á mánudögum! Ótrúlega skrýtið...


money money...

Ég er búin að vera að velta því fyrir mér undanfarna daga, hvað sé hægt að gera til að fá pening í vasann- án þess þó að vera með vinnu. Ég lét hugann reika, datt í hug að bjóða fjölskyldunni upp á hreingerningu gegn vægum styrk, láta skora á mig að hlaupa nakin niður Laugaveginn (never never). Það var svo margt sem kæmi til greina.

En svo skall hugmyndin á mér bara si svona, þegar systir mín hringdi og kom með hana. Sjúmmm, Kolaportið!!! Það er akkúrat staður sem fólk mætir á tímum sem þessum til þess að finna ódýra hluti. Það leynist ýmislegt í geymslum fólks og hvers vegna ekki að taka það fram og reyna að koma því í verð?  Þeir sem eru áhugasamir geta farið inn á www.kolaportid.is og séð verð og annað slíkt. Það kom mér á óvart að það er ekkert svo dýrt að leigja pláss yfir eina helgi. Check it out :)

mban658l


sjúmmmm, ég blikkaði augunum og bensínið hækkaði.

Vá, það stendur ekki á þeim, krónan má ekki fara rétt upp á við og þá eru þeir búnir að hækka.

Annars er ég með eitt svona bragð þegar maður er að dæla, það borgar sig til lengri tíma ef í mörgum árum er talið: Hrista slönguna þegar maður er búinn að dæla- það kemur alltaf eitthvað út og mér finnst ég vera að græða alveg geðveikt :)


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann er tannlaus greyið...

Fyrir ári síðan fór ég með dóttur mína í þessa árlegu skoðun til tannlæknis og þurfti að greiða 6 þúsund krónur fyrir. Ég fór með reikninginn í tryggingastofnun þar sem mér var tjáð að búið væri að draga frá framlag TS.  Hmmm... 6 þúsund krónur í venjulegt tjékk fyrir fólk sem á engan pening er rosalega há upphæð og er til þess að börn fara hreinlega ekkert til tannlæknis.

Hvað varð um skólatannlækninn? Hann var svo frábær, maður fór til hans einu sinni á ári í svona skoðun. Það ætti að vera skylda að fara með börnin sín til tannlæknis, en þá yrði þessi þjónusta að sjálfsögðu að vera ókeypis.

I rest my case.


mbl.is 10 þúsund krefjast ókeypis tannlækninga fyrir börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2007 verður 2009- önnur birting

Ég ákvað að skella inn gamalli færslu sem mér fannst vera svo lýsandi yfir ástandið í þjóðfélaginu í dag. Ég birti hana þegar ég var nýbyrjuð að blogga en hér kemur hún aftur:

Hún opnar skápinn, tekur út pelsinn og virðir hann fyrir sér. Ætli sé nógu kalt til að fara í hann? Hún stingur honum aftur inn og vonar að kuldinn komi bráðum.

Hún heyrir í bíl fyrir utan. Maðurinn er kominn heim. Hann stígur út úr flotta Range Rovernum sínum sem hann keypti fyrir bónusinn í fyrra. Hún tekur eftir því að hann er tekinn í framan og ósofinn. Hann kyssir hana og gengur inn. Fer enn eina ferðina að minnast á að þau hefðu kannski átt að sætta sig við 200 fermetra en ekki 350. Hún strýkur með tusku af granítplötunni og virðir Tolla málverkið fyrir sér. Það passar alveg á vegginn.

Hún spyr hann hvort hann sé svangur og hann svarar játandi. Hún opnar ísskápinn. Þar er einn líter af mjólk og útrunninn skyrdolla. Eftir smá tíma kallar hún á hann og þau setjast við borðið. Hún skenkir hafragrautnum. Þau horfa hugsi á hvort annað. Kannski- bara kannski er hamingjan á næsta horni.


fjölmiðlafár

Nú er sjónvarpsviðtalinu lokið við Ástralíu og Írland, ég hafði rosalega gaman af viðtalinu fyrir utan það að nefið á mér var að detta af sökum íslenskrar veðráttu. Ég var búin að fara í sturtu og greiða á mér hárið- ég er ekki viss um að neinn hafi tekið eftir því þar sem hárgreiðslan breyttist á 5 sekúndna fresti þegar rokið kom. Þetta er gaman en það gæti alveg verið gaman að fá laun fyrir að vera í svona viðtali- þá gæti ég jafnvel orðið atvinnu- atvinnuleysingi.  

Það er ótrúlegt hve mikinn áhuga önnur lönd hafa á Íslandi. Ekki bara evrópskir fjölmiðlar, heldur líka fjölmiðlar hinum megin á hnettinum. Fréttamenn flykkjast til Íslands til þess að vera vitni af ástandinu hér og tala við fólkið. Mestan áhuga hafa þeir þó af íbúðalánum og tómum byggingum. Það er gott að einhver geti lýst því fyrir þeim á almennan hátt hvernig ástandið er hérna.

Þannig að- ef einhver þekkir Opruh, látið hana vita að ég er laus whenever. Mig hefur alltaf langað til að fara til Chicago-hehehe...


þriðjudagar til þrautar

Ég veit ekki alveg afhverju það er, en síðan ég varð atvinnulaus, hafa þriðjudagar verið erfiðustu dagarnir. Kannski er það vegna þess að ég hef alltaf fengið póst frá Capacent þar sem segir að ég hafi ekki komið til greina vegna vinnu sem ég sótti um, kannski er það út af stöðu tunglsins- ég get ekki alveg skilið það.

Mig dreymdi í nótt að ég hefði misst tönn, ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og hélt að það væri fyrir einhverju frábæru, kannski að óvæntir peningar myndu detta í fangið á mér, að draumurinn væri einhvers konar fyrirboði þess að ég gæti skilið við atvinnulausa lífið. Svo fletti ég draumnum upp í draumaráðningabókinni. Jahhh.. þetta var ekki alveg það sem ég hélt. Ég á semsagt eftir að lenda í vandræðum með einhvern ættingja og þetta getur einnig verið fyrirboði andláts. Ég hef ákveðið að láta þennan draum sem vind um eyru þjóta- enda er það best þegar hann er ekki fyrirboði einhvers góðs. Svo dreymdi mig reyndar líka að ég gæti gert skrilljón upphífingar í World Class, aðeins skemmtilegra heldur en hinn draumurinn. Ekkert skrítið að ég hafi verið aum í höndunum þegar ég vaknaði!

Oh jæja, þriðjudagur er að verða búinn og þá taka bara góðir dagar við.

Á morgun á ég von á einhverju áströlskum sjónvarpskörlum heim til mín og þarf að segja frá ástandinu á Íslandi. Best að dusta rykið af enskunni og æfa mig í hinum ástralska hreim. Vonandi fæ ég slönguskinn að gjöf- eða krókódílaskó. Maður má alltaf vona....


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband