Færsluflokkur: Lífstíll

pólitík tík tík...

Ég ákvað þegar ég byrjaði með þessa síðu að ræða aldrei um pólitík en þar sem kosningar eru eftir 2 daga, gef ég mér leyfi fyrir pínu pólitík.

Algengasta spurningin sem erlent fjölmiðlafólk spyr mig, er hvort ég sé reið út í einhvern út af ástandinu á Íslandi. Ég svara með mínu jákvæða hugarfari að það sé að sjálfsögðu hægt að finna einhvern til þess að vera reiður út í en það hafi bara ekkert upp á sig. Það verði að huga að framtíðinni og hjálpast að til að finna lausn úr þessum vanda.

Ég hef einnig verið spurð hvað ég vilji sjá að verði gert á næsta kjörtímabili. Ég þurfti að hugsa mig vel um því úr svo mörgu var að taka. Ég er ekki enn búin að ákveða hvaða flokk ég ætli að kjósa því það er bara svo erfitt. Þess vegna hef ég ákveðið að fara með nokkrar spurningar á ákveðnar kosningaskrifstofur á morgun og sá flokkur sem svarar þeim best fær mitt atkvæði. Ég hugsa auðvitað um hvað sé best fyrir mig og mína fjölskyldu, þar sem við erum í miðri kreppu- ég atvinnulaus, með erlend lán og börn á mínu framfæri.

Ég ætla að bera eftirfarandi spurningar undir flokkana:

1. Hvernig ætlið þið að sjá til þess að börnin þurfi ekki að þjást vegna kreppunnar? Að mínu mati á sú kynslóð sem á engan þátt í hvernig komið er fyrir þjóðinni ekki að þurfa að þjást. Allt sem viðkemur börnum ætti að vera ókeypis, eins og að fara til tannlæknis, kaupa lyf, skólamatur osfrv. Ég fór í Tanngarð síðustu helgi með börnin mín þar sem við höfum ekki ráð á tannlæknaskoðun þetta árið. Ég fékk algjört áfall þegar ég kom þarna og sá hvað mörg börn voru mætt með foreldrum sínum. Mörg börn höfðu það miklu verra en mín börn og sum höfðu jafnvel aldrei farið til tannlæknis. Ein ferð til barnalæknis og pensilínskammtur kostar um 4000 krónur síðast þegar ég gáði og hafa ekki margir ráð á því. Ég vil heldur ekki að börn þurfi að vera svöng í skólanum því að foreldrar hafi ekki ráð á að greiða um 5000 krónur á mánuði í skólamat.

2. Hvernig ætlið þið að sporna við atvinnuleysi? Ég vil ekki heyra svarið, jah- við ætlum sko að skapa um 6þúsund ný störf. Ég vil fá að vita hvernig á að fara að því og hvort verið sé að horfa til allra atvinnulausra eða bara ákveðins hóps. Er verið að huga að fólki með menntun, iðnmenntuðu fólki, ungu fólki, gömlu fólki, fólki með enga menntun osfrv. Mér finnst svolítið skrýtið að ríkið sé að segja upp fólki en um leið ætli það að skapa ný störf... Eitthvað furðulegt við það.

3. Hvað á að gera fyrir fólkið í landinu sem er með húsnæðislán? Ég komst nýlega að því að bankarnir breyttu erlendum lánum yfir í íslensk í janúar 2008 vegna þess að þeir vissu að krónan myndi lækka. Samt heldur skuldarinn áfram að greiða háar afborganir miðað við gengi krónunnar. Því græða bankarnir á tá og fingri á mismuninum. Ég vil heldur ekki heyra að hægt verði að lengja húsnæðislánin og borga minna í einhvern x tíma, hvað hefur það upp á sig? Það er engin lausn.

Ég tek það fram að þetta er bara mín skoðun og ætla ég að ganga með opinn hug á milli kosningaskrifstofa með þessar spurningar í farteskinu.

politics-essence


hitabylgja á Íslandi- not...

Það er ekki beint sumarveður úti, lárétt rigning og 3 stiga hiti. Svona veður fær mig alltaf til þess að muna eftir því þegar ég bjó í Breiðholtinu í gamla daga. Það var febrúar og ég hef örugglega verið um 10 ára gömul. Fólk var beðið um að halda sig inni þar sem var ofsarok úti. Við mamma horfðum út um gluggann af sjöundu hæð og fylgdumst með manni hanga á milli staura. Hann hélt á poka með gosi úr sjoppunni. Skyndilega tókst hann á loft og rúllaði eftir götunni og sleppti pokanum sem fauk út í buskann. Ég vorkenndi þessum manni hryllilega þegar hann skreið eftir götunni í átt að heimili sínu og hef því aldrei gleymt þessu- fyrir utan að ég er með minningalímheila.

Ég er með svo mikið lím á heilanum að vinir og vandamenn eiga það til að hringja í mig til þess að rifja upp ýmsa hluti sem gerðust í fortíðinni og fyrir mér eru þessar minningar í lifandi ljósi. Stundum er gott að muna svona mikið en óþarfa upplýsingar geta líka safnast fyrir í heilanum svo það er ekki pláss fyrir hlutina sem maður verður að muna Wink


umsókn um sumarstarf hjá Reykjavíkurborg..eitthvað duló

Ég sótti um vinnu hjá Sorphirðu Reykjavíkur í sumar, sá það sem gott tækifæri að vinna í erfiðu umhverfi, komast í gott form og breyta til. Umsóknarfrestur rann út í gær, 19.apríl. Why not? hugsaði ég, góður vinnutími og ágætlega borgað.

Í dag, 20.apríl klukkan hálftvö fékk ég svo póst um það að ráðið hefði verið í starfið og mér var þakkað fyrir að sýna starfinu áhuga. Þetta finnst mér eitthvað dularfullt- að umsóknarfrestur rann út í gær á sunnudegi og að búið sé að ráða í starfið á hádegi daginn eftir! Eru ekki fleiri en ég sem sjá eitthvað athugavert við þetta- ég bara spyr??? Eiga allir jafnan séns? I don't think so. Þetta er eins og að keppa við Golíat!

 


hrakfarir Ingu volume 4...

Ég ákvað að Googla mig áðan og fann gamalt blogg sem ég skrifaði fyrir 4 árum síðan. Fyrst ég er búin að opna dyrnar á hrakfallasögum mínum, get ég ekki hætt alveg strax :)

Ég hló meira að segja sjálf og trúi því varla að ég hafi skrifað þetta á bloggið mitt.. Hér kemur sagan:

15.04.2005 10:45:13 / ingaje

Enn einn föstudagurinn genginn í garð. Oh, hvað maður er alltaf þreyttur en ánægður á föstudögum.

Ég, frú hrakfallabálkur, ólukkunnar pamfíll, er búin að lenda í ýmsu þessa vikuna:

  • Ég ákvað að fara í plokkun á þriðjudaginn, bara svona til að líta vel út og svona. Ég fór á minn vanalega stað og fékk plokkun og litun. Þegar stelpan var búin að plokka mig, slengdi hún spegli í andlitið á mér, og ég með sviðann í augunum eftir litinn, sagði bara "fínt". Ég fór út í bíl. Úti var sólskin þannig að hver felling og hvert hár sást betur en með stækkunargleri. Ég leit í spegil og brá, því ég hélt að það væri rússnesk bóndakona í baksætinu á bílnum. En, ég uppgötvaði síðar- eftir að ég var búin að jafna mig, að þetta var ég!!! Ég hef aldrei séð jafn loðnar augabrúnir... Ég keyrði á ofsahraða í Lyfju og hljóp inn. Ég passaði mig á að horfa niður allan tímann, fór í eina hilluna og fann plokkara. Svo borgaði ég og hljóp út. Eftir það sat ég inni í bíl og eyddi afgangnum af matartímanum mínum í að plokka hárin sem "snyrtifræðingurinn" hafði verið svo örlát að skilja eftir.
  • Ég rak hnéð á mér í gerefti heima þegar ég var að setja tappa undir skenkinn okkar. Ég er það bólgin að ég er búin að haltra í 2 daga.
  • Fimm mínútum seinna, rak ég ennið á mér í ljós, svo harkalega að ég var hrædd um að fá glóðarauga. En sem betur fer, er bólgan bara langt undir húðinni
  • Í gær var ég að tala við viðskiptavin í símann og náði á einhvern hátt að klemma puttann minn á milli borðsins og stólsins. Ég þurfti að halda ró minni í símann en það var svo mikill sláttur í puttanum mínum allan daginn að ég átti erfitt með að nota lyklaborðið. En það er búið núna.
  • Áðan rak ég svo sköflunginn í blómapottinn...

Hvernig ætli helgin verði?


hvað gerir þú, frú atvinnulaus?

Ég talaði við norskan blaðamann í gær sem spurði mig hvað ég gerði á daginn þegar ég væri án vinnu. Ég sagði honum að ég væri sko búin að finna út úr því hvernig ætti að nýta tímann og það væri frábrugðið því hvernig var fyrst þegar ég varð atvinnulaus! Hann virtist mjög áhugasamur og spurði mig hvað ég væri að gera. Ég sagði honum að ég færi í skóla hálfan dag í viku, færi í ræktina þrisvar á virkum dögum og ....jah... uuuuu. Mér datt bara alls ekkert annað í hug og varð ég því frekar vandræðaleg. Síðan bjó ég eitthvað til, eins og að ég væri alltaf á skíðum þó svo að ég hefði bara farið einu sinni í vetur. Hann kinkaði kolli og virtist alveg kaupa þetta letisvar mitt.

 


hrakfarir í hinu daglega lífi

Ég hef lengi vel verið talinn hrakfallabálkur- á það til að rekast í ólíklegustu hluti og meiða mig. Eftir að hafa farið í hjólatúr í dag, rifjaðist það upp fyrir mér. Eitt sinn bloggaði ég um ófarir mínar á hjólinu og ætla ég að birta það hér, þar sem þetta var vont- en líka fyndið...

Ég ákvað að vera rosalega healthy og cool um daginn, og skella mér út að hjóla. Ég fór niður og pumpaði í dekkin, það gekk nú eitthvað erfiðlega þannig að hjólið skall á hliðina. Það blæddi úr puttunum mínum, þannig að auðvitað þurfti ég að fá "Dóruplástur" til að laga meiddið. Eftir að ég náði að pumpa meira í dekkin (þetta ferli tók ca. hálftíma), þá settist ég á hjólið með hjálm og alles. Ég sleppti að sjálfsögðu ekki hipp og cool heyrnatólunum mínum og Ipodinum, þannig að ég var vel sett. Þegar ég var búin að hjóla í 3 mínútur, kom ég að umferðargötu og uppgötvaði þá mér til skelfingar að það voru engar bremsur á hjólinu, þannig að ég datt á hliðina með látum. Ég spratt upp með heyrnatólinum umvafin um hálsinn og skakkan hjálm. Ég leit í kringum mig, til að tékka hvort einhver merkilegur hefði nokkuð séð þessar ófarir- því án efa var þetta frekar fyndið. Ég skrönglaðist af stað heim á leið með tárin í augunum og að drepast alls staðar. Hjólið er allt í rispum og ég er rétt að jafna mig núna, með mar og sár á ólíklegustu stöðum (Milli lappanna, í hnésbótinni- á brjóstinu!!) og út um allt. Það verður nú einhver bið í að ég fari aftur út að hjóla

Um daginn kom ég heim og var hurðin að forstofunni lokuð, ég læddist inn og opnaði hurðina hljóðlega- í von um að geta hrætt úr heimilisfólkinu líftóruna... hehe... En það fór verr en á horfðist, mér tókst að opna hurðina með því að skella henni á augað og rak því upp þvílíkt vein að það hefur örugglega heyrst upp í auðnina í Úlfarsfellinu.

Ég fór í leikhús á mánudaginn að horfa á dóttur mína dansa, þegar ég þurfti að setja litla guttann í bílinn, rak ég framtönnina í þakið á bílnum og var aum í tvo daga á eftir.

Ég veit ekki hvort ég er svona blind eða bara svona óheppin- en svona hrakfarir gerast ósjaldan í mínu lífi. Það er bara ótrúlegt að ég skuli enn vera standandi.

 


Slys í grænmetisdeild

Ég gekk um í rólegheitum í Bónus, týndi ofan í körfuna á sama tíma og ég þokaðist lengra inn í búðina. Ég var í góðu skapi, enda með litla grínistann með mér sem sat í körfunni og benti á allt sem hann langaði í. Hann elskar "grísabúðina" eins og hann kallar það- heilsar öllum sem dirfast framhjá okkur og knúsar mömmu sína á mínútufresti.

Sem betur fer fór ég á tíma sem fáir fara í Bónus- klukkan 2, þó voru nokkrir viðskiptavinir dreifðir um búðina. Ég og grínistinn skröltumst inn í grænmetiskælinn og vógum hvort við ættum að kaupa vínber eða sleppa því. Honum finnast þau betri en allt sem til er og því var þrýstingurinn nokkur. Ég stóðst ekki biðjandi augnaráð hans og keypti því nokkur stykki. Því næst héldum við för okkar áfram um þennan annars risa grænmetiskæli í Korputorgi.

Ég ligg í gólfinu, með aðra höndina á kerrinu og hina á gólfinu, ringluð og með rosalegan verk um allan kroppinn. Það fyrsta sem ég geri er ekki að standa upp, heldur svipast ég um- liggjandi á gólfinu, hvort einhver hafi nokkuð séð þetta! Svo var ekki og því gat ég grett mig og fellt eitt tár. Litli grínistinn hefur miklar áhyggjur af mömmu sinni og spyr hvort ekki sé allt í lagi, ég rís upp hægt og rólega og hugsa með mér að ég sé örugglega hryggbrotin (er það ekki) og sé þar grænmetisblað liggja á gólfinu þar sem ég rann. Ég vind mér að næsta starfsmanni og bið vinsamlegast um að þetta verði skúrað hið snarasta.  Maður minn kemur og hjálpar mér með matinn út úr Bónus, stöðvar mig á bílastæðinu og skafar grænmetisklessu af lærinu mínu.

Í dag er Föstudagurinn langi og ég ber enn vott um þetta slys í Bónus á mánudaginn. Ég hef verið að velta því fyrir mér að hafa samband við Bónus og fá að sjá öryggismyndbandið, þar sem ég er viss um að þetta hafi verið ótrúlega fyndið... hehehe...


Séreignasparnaður (sjá færslu 1.apríl)

 Ég fékk þetta svar frá viðskiptaráðuneytinu við fyrirspurn sem send var 1.apríl síðastliðinn og sendi svo ítrekun 6.apríl varðandi séreignasparnað: 

Tilvísun í mál: VRN09040004

Ráðuneytið hefur móttekið erindi yðar dags. 1. og 6. apríl sl. Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að innlánadeild Tryggingarsjóðs tryggir innistæður í bönkum og sparisjóðum. Verðbréfadeild sjóðsins tryggir að verðbréf, hlutdeildarskírteini eða reiðufé sé tiltækt fyrir eigendur þeirra ef á reynir. Þannig tryggir verðbréfadeild glötuð verðbréf, hlutdeildarskírteini eða peninga. Verðbréfadeild tryggir ekki markaðsverðmæti verðbréfasjóða þar sem markaðsverðmæti ræðst af verði undirliggjandi eigna.

Þegar séreignarsparnaður er á sérstökum innlánsreikningum (lífeyrisbókum), er ljóst að slíkur sparnaður er varinn af Tryggingarsjóði. Þegar hins vegar séreignarsparnaður er ávaxtaður í ýmsum sjóðum bankastofnana ræðst verðmæti þeirra af undirliggjandi eignum viðkomandi sjóða en markaðsverðmæti þeirra er ekki varið af Tryggingarsjóði.

Nálgast má nánari upplýsingar hjá SPRON sjá: http://www.spron.is/Article.aspx?catID=2441&ArtId=3949

Málefni lífeyrissjóða og þar með séreignalífeyrismál heyra undir fjármálaráðuneytið og verður erindi yðar jafnframt framsent þangað í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 


mohohohohoho...... Southpark- and now it's gone

Stundum verður maður bara að hlæja....

 


Þetta snertir alla!

Þegar ég fer að hugsa um þessa rosalega tölu, að atvinnulausum fjölgi um ca. 1000 manns á milli mánaða, hríslast um mig ónotatilfinning sem mér þykir erfitt að ýta burt. Það sem er hræðilegast er að þessi tala virðist ekki fara minnkandi, heldur hækkar hún bara!

Ég var spurð um daginn hvað búið væri að gera fyrir atvinnulausa á Íslandi og þurfti ég að hugsa mig vel um áður en ég gat svarað þeirri spurningu. Það er búið að gera eitthvað- en ekki nóg. Ef 1000 manns bætast við atvinnuleysisskrá í hverjum mánuði, þyrfti að búa til jafnmörg störf á móti.

Ég fæ mínar atvinnuleysisbætur í hverjum mánuði fyrir að vinna ekki neitt, hvers vegna er ekki hægt að skapa störf fyrir þennan hóp af fólki? Þegar ríkið fer að skera niður stöðugildi hjá sér, hvað er þá eftir?

Það sem er mér óskiljanlegt er hvers vegna ríkið ákveði ekki að nýta allt sem þeir geta til þess að skapa störf fyrir einstaklinga. Vinnumálastofnun greiddi út 2 milljarða um síðustu mánaðamót í atvinnuleysisbætur. Tel ég að sú upphæð sé dropi í hafið miðað við öll þau útgjöld sem ríkið þarf að greiða og væri því ekki nær að leyfa fólki að halda vinnu sinni hjá ríkinu og skapa ný stöðugildi í stað þess að "gefa" peninginn? 

 


mbl.is Yfir 12 þúsund á atvinnuleysisskrá á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband